Erlent

Út­farar­stjóri játar að hafa stolið rúmlega þrjá­tíu rotnandi líkum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Útfararstjórinn Randy Lankford hefur játað að hafa stolið fjölda mannslíka sem hann átti að grafa og brenna en gerði ekki.
Útfararstjórinn Randy Lankford hefur játað að hafa stolið fjölda mannslíka sem hann átti að grafa og brenna en gerði ekki. Skjáskot

Útfararstjóri í Indiana hefur játað sekt í yfir 40 ákæruliðum þjófnaðar eftir að rotnandi lík rúmlega þrjátíu einstaklinga fundust á útfararstofu hans. Maðurinn gæti átt yfir höfði sér tólf ára dóm og þarf að greiða 53 fjölskyldum skaðabætur.

Lögreglan í Jeffersonville í Indiana-fylki hóf rannsókn á Lankford-útfararstofunni, sem Randy Lankford rekur, eftir að henni bárust ábendingar um að sterkur fnykur kæmi frá byggingunni. 

Við rannsóknina fannst fjöldi líkamsleifa sem höfðu ekki verið geymd í kæli og voru því byrjuð að rotna. Einhver líkanna höfðu verið á stofunni í marga mánuði. Einnig fannst aska af sautján einstaklingum. 

Fjöldi viðskiptavina hafði tekið heim með sér duftker með ösku sem þau töldu vera af ástvinum sínum en reyndust vera af einhverjum allt öðrum. Á meðan var hin raunverulega aska enn á útfararstofunni eða líkin höfðu hreinlega ekki verið brennd.

Gæti fengið langan dóm

Saksóknarar hafa ákært Lankford fyrir að uppfylla ekki þá þjónustu sem hann fékk greitt fyrir. Ákæran er í 43 liðum sem snúa allir að þjófnaði og hefur Lankford játað sekt við þeim öllum.

Dómari málsins hefur lagt til að Lankford fái tólf ára dóm, þar af fjögur ár í fangelsi og átta í stofufangelsi. Þá er honum gert að greiða 53 fjölskyldum skaðabætur sem nema rúmlega sex milljónum íslenskra króna.

Dómsuppkvaðning í málinu fer fram 23. júní og hefur Lankford verið settur í stofufangelsi þangað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×