Skoðun

Verjum grænu svæðin fyrir á­gangi meiri­hlutans í Reykja­vík

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Í vikunni ræddum við umhverfisráðherra um áhyggjur mínar af grænum svæðum í Reykjavík á Alþingi. Í nýlegri úttekt OECD um húsnæðismarkaðinn á Íslandi kom nefnilega fram að aðgengi Íslendinga að grænum svæðum í þéttbýli væri minnst allra OECD-ríkja. Það var því fullt tilefni fyrir mig, sem þingmann Reykvíkinga, að hafa þessar áhyggjur. Þær reyndust enda á rökum reistar.

Umhverfisráðherra staðfesti þannig að aðgengi okkar að Reykvíkinga að grænum svæðum væri mjög lakt í alþjóðlegum samanburði. Það sem meira er, þá sagði ráðherrann það vera alveg ljóst að grænu svæðin okkar – sem eru nú þegar umfangslítil – ættu undir högg að sækja vegna stefnu meirihlutans í Reykjavík um þéttingu byggðar. Hann nefndi þar m.a. áform í tengslum við Skerjafjörðinn, Elliðaárdalinn og Laugardalinn. Hvergi má sjá auðan grasblett öðruvísi en að byggja á honum!

Hvað varðar Skerjafjörðinn benti umhverfisráðherra á að með tillögu meirihlutans í Reykjavík verði óraskaðri fjöru nánast alveg eytt. Það muni hafa verulega slæm áhrif á líffræðilega fjölbreytni eins lífríkasta svæðis í Reykjavík. Náttúrufræðistofnun hefur bent á að áform meirihlutans séu í rauninni í andstöðu við lög um náttúruvernd. Þarf þá ekki að staldra aðeins við?

Við ættum að taka öllum hugmyndum um að ganga á græn svæði með miklum fyrirvara. Ég tel reyndar að framgangur forystu meirihlutans í Reykjavík og ágangur á græn svæði hljóti að vera einsdæmi í okkar heimshluta. Umhverfisráðherra hefur líka bent á að flestar, ef ekki allar þjóðir, sem við berum okkur saman við leggi áherslu á græn svæði og líffræðilega fjölbreytni. Ég hvatti því ráðherrann því til að grípa inn í, m.a. til að koma í veg fyrir eitt stærsta umhverfisslys okkar tíma á höfuðborgarsvæðinu sem landfyllingaráform í Skerjafirði verða.

Og að lokum vil ég hvetja fulltrúa annarra flokka til að taka undir með Sjálfstæðisflokknum og kæfa þessi áform í fæðingu. Áður en óafturkræft tjón verður unnið af skammsýnum stjórnmálamönnum.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×