Fram kom í Stjörnulífinu á Vísi á þriðjudaginn að Ásgeir hefði verið meðal fjölmargra Íslendinga sem var á suðrænum slóðum liðna helgi. Unnusta Ásgeirs var með í för og birti mynd af sér á sundlaugabakka á glæsilegu hóteli í Dubrovnik sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna í Króatíu.
Um er að ræða Hótel Palace í króatíska bænum þar sem ráðstefnan var haldin. Fram kemur á vef ráðstefnunnar að aðeins þeir sem fá boð geti sótt hana. Bankastjórar, bankastarfsmenn og blaðamenn voru á meðal 98 boðsgesta.
Fram kemur á heimasíðu Seðlabanka Íslands að Ásgeir hafi stýrt pallborðsumræðum sem báru yfirskriftina: Banking: Troubles on horizon or idiosyncratic shocks? Þar er þeirri spurningu velt upp hvort vandamál séu í sjónmáli í bankakerfinu.
Fjallað var um að hversu miklu leyti nýlegt gjaldþrot banka í Bandaríkjunum og yfirtaka UBS í Sviss væri vegna uppsöfnunar áhættu í fjármálakerfinu og hvaða þættir hefðu áhrif á horfur um alþjóðlegt fjármálakerfi.

Ráðstefnan stóð yfir frá fimmtudegi til laugardags og kom Ásgeir aftur til landsins á mánudag. Hann var viðstaddur úthlutun úr menningarsjóði tengdum Jóhannesi Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra, í gær.
Erindi seðlabankastjóra má finna hér að neðan, á ensku.