Handbolti

Einar búi yfir töktum frá Ólafi föður sínum

Aron Guðmundsson skrifar
Einar Þorsteinn spilar undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar hjá Fredericia í Danmörku. Faðir Einars er Ólafur Stefánsson, handboltagoðsögn.
Einar Þorsteinn spilar undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar hjá Fredericia í Danmörku. Faðir Einars er Ólafur Stefánsson, handboltagoðsögn. Vísir/Samsett mynd

Guð­mundur Guð­munds­son, þjálfari danska úr­vals­deildar­fé­lagsins Frederica segir Einar Þor­stein Ólafs­son, leik­mann liðsins hafa tekið miklum fram­förum en fé­lagið er hans fyrsti við­komu­staður á at­vinnu­manna­ferlinum. Þá megi greina takta hjá leik­manninum sem faðir hans, hand­bolta­goð­sögnin Ólafur Stefáns­son, bjó yfir í leik sínum.

Einar Þor­steinn er 21 árs gamall og hefur hann verið á mála hjá Fredericia í rúmt eitt ár núna.

„Einar er mjög efni­legur leik­maður og stundar í­þróttina af mikilli sam­visku­semi og á nú ekki langt að sækja það,“ segir Guð­mundur, þjálfari Einars í sam­tali við Vísi. „Hann hefur klár­lega hæfi­leika og er á hár­réttum stað í sínu þroska­ferli sem leik­maður. “

Danska deildin sé mjög krefjandi deild hafi Einar því verið að koma inn í mjög erfiðar að­stæður í upp­hafi síns at­vinnu­manna­ferils.

„Hér er að finna mjög líkam­lega sterka leik­menn, taktískt séð eru þeir einnig mjög sterkir og búa yfir miklum hraða og þá er enginn auð­veldur leikur í þessari deild.“

Einar hafi þó tekið miklum fram­förum í þessum að­stæðum.

„Til að byrja með var þetta ekki ein­falt fyrir hann en núna hefur Einar sýnt það og sannað að hann er að verða betri og betri.“

Eigi að henda frasanum „Einar komst ekki á blað“

Að sögn Guð­mundar hefur Einar stóru hlut­verki að gegna í liði Frederica.

„Það þarf að breyta einum frasa á Ís­landi, það er frasinn „Einar komst ekki á blað“ þar sem er svo látið við sitja sökum þess að Einar hefur ekki verið að skora mikið af mörkum.

Hann er hins vegar að spila mjög stórt hlut­verk hjá okkur varnar­lega og er því svo sannar­lega á blaði og menn verða að átta sig á því að hann er, eins og staðan er núna, fyrst og fremst varnar­maður í liðinu þó svo að hann keyri einnig upp hraða­upp­hlaupin.“

Einar eigi bara eftir að þroskast meira eftir því sem líður á og verða betri.

„Hann á fram­tíðina fyrir sér í þessu, alveg klár­lega.“

Guð­mundur þjálfaði Ólaf Stefáns­son, föður Einars og goð­sögn í hand­bolta­heiminum, lengi vel hjá ís­lenska lands­liðinu. Hann segir Einar klár­lega hafa tekið í gagnið takta frá föður sínum inn á völlinn.

„Hann hefur mjög góðan skilning á hand­bolta og er alltaf á fullu, æfir mjög vel og er sam­visku­samur. Með því verður hann bara betri og betri leik­maður en það mun taka tíma fyrir hann að ná enn lengra. Þetta er ferli og Einar er enn ungur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×