Elva segir rekstrarformið á listdansskólum á Íslandi gríðarlega krefjandi. Til dansiðkunar þurfi stórt rými og þá sé leigan orðin há. Án styrkja frá ríki eða sveitarfélagi sé reksturinn erfiður. „Það eru allir listdansskólar á landinu að ströggla,“ segir hún.
Í Facebook færslu Plié listansskólans sem birtist í gær kemur fram að skólahaldið gangi ekki upp meðan skólinn njóti ekki stuðnings hins opinbera.
„Af því að við erum að kenna listgrein fáum við enga styrki frá hvorki ríki né sveitarfélagi,“ segir Elva. Hún segir það hafa verið flott skref þegar ríkið fór að styrkja tónlistarskólana. Þá segist hún vona að umræðan nái til stjórnvalda svo að eitthvað verði gert til þess að létta undir með listdansskólum.
„Við megum ekki segja upp leigusamningnum okkar, komumst ekki út fyrr en 2025 og þar af leiðandi er í raun ekkert annað hægt að gera en að skila inn félaginu, verða gjaldþrota.“ Elva segir 600-1000 iðkendur stunda listdansnám við skólann ár hvert. „Þetta eru allt krakkar sem eru hræddir um að skólinn þeirra verði ekki til eftir sumarfrí,“ segir hún. „Útlitið er hræðilegt.“
Aðspurð segir hún að framtíð danslistarinnar á Íslandi klárlega vera í hættu. „Við vonum að við getum byrjað upp á nýtt á öðrum stað en það er náttúrlega krefjandi og kostar mikið,“ segir hún.