Erlent

Kat­hleen Fol­bigg náðuð og sleppt eftir 20 ár í fangelsi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Allt virðist benda til þess að börn Folbigg hafi látist af náttúrulegum orsökum.
Allt virðist benda til þess að börn Folbigg hafi látist af náttúrulegum orsökum. epa/Joel Carrett

Kathleen Folbigg hefur verið náðuð og sleppt eftir 20 ár í fangelsi. Hún var dæmd í 25 ára fangelsi árið 2003 fyrir að myrða þrjú barna sinna og valda dauða þess fjórða. 

Ákvörðunin um að sleppa Folbigg var tekin af hálfu yfirvalda í Ástralíu í kjölfar ítarlegrar rannsóknar.

Vísir hefur áður fjallað um mál Folbigg en virtir vísindamenn hafa haldið því fram í nokkur ár að börn Folbigg, sem hún var ásökuð um að hafa myrt eitt af öðru, hafi líklega fæðst með tvær erfðabreytingar sem auka líkurnar á hjartastoppi annars vegar og flogaveiki hins vegar.

Hjartalæknirinn Davíð O. Arnar kom að því að ritrýna rannsókn á erfðabreytileikanum sem Folbigg og tvær dætra hennar greindust með; CALM2.

CALM2 stjórnar framleiðslu calmodulins, sem er prótein sem er mjög mikilvægt starfsemi hjartans en umræddur erfðabreytileiki eykur líkurnar á alvarlegum hjartsláttartruflunum og hjartastoppi.

Synir Folbigg greindust með erfðabreytileika sem vitað er að veldur alvarlegri og banvænni flogaveiki í músum.

Dómarinn Thomas Bathurst, sem fór fyrir rannsókninni á máli Folbigg, sagði óyggjandi að vafi léki á sekt Folbigg og að raunar væru líkur á að að minnsta kosti þrjú barna hennar hefðu í raun látist af náttúrulegum orsökum.

Ekkert benti til annars en að Folbigg hefði verið umhyggjusöm móðir.

Folbigg hefur ekki tjáð sig eftir að henni var sleppt en vinir hennar fagna málalokum. Búist er við því að hún muni sækja bætur vegna fangelsisvistarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×