Myndin, sem sýnir kort af heiminum í mismunandi litum eftir hitastigi, hefur verið í talsverðri dreifingu á samfélagsmiðlum íslenskra notenda að undanförnu. Myndin er nánast öll rauð eða appelsínugul, að undanskildu suðurskautinu, og bletti sem nær að hluta til yfir Ísland. Margir virðast telja þetta til marks um óheppni Íslendinga í veðurmálum. Veðurfræðingur segir málið ekki alveg svo einfalt.
„Það er verið að dreifa gamalli mynd. Hún er orðin átta ára gömul, þegar þessi kuldablettur var mjög áberandi í sjónum fyrir suðvestan landið. Núna er bara þannig að það sér ekki til hans, allavega ekki í yfirborðssjónum. Þó hann gæti nú kannski lúrt neðar þá hefur hann ekki áhrif á veðrið hjá okkur,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Sjórinn fyrir sunnan og suðvestan landið sé fremur hlýr um þessar mundir.

Dæmigerð falsfrétt
Samkvæmt Einari er kortinu ætlað að sýna breytingar sem muni verða yfir hundrað til tvöhundruð ár. Afleiðingar af loftslagsbreytingum, þar sem flest hafsvæði heims muni hlýna. Einar segir að hins vegar að sums staðar muni ekki hlýna, og jafnvel kólna, til að mynda við Ísland
„En núna eru þessi áhrif bara lítt sýnileg eða bara ekki neitt.“
Þannig að þegar fólk sér þessa mynd í dreifingu á netinu þá ætti það kannski ekki að afpanta á tjaldsvæðinu?
„Nei, er þetta ekki bara dæmigerð falsfrétt eins og við sjáum stundum þegar er verið að dreifa einhverju gömlu?“ spyr Einar þá.
Ekki von á sólskini
Þrátt fyrir að kuldabletturinn ásæki ekki íbúa suðvesturhornsins muni sólin ekki láta sjá sig mikið í vikunni. Þó sé nokkuð hlýtt á svæðinu, þó enn hlýrra sé fyrir norðan og austan.
„Svo á að kólna aðeins um helgina og þá hreinsast nú upp úr þessu og íbúar á suðvesturlandi gætu tekið gleði sína á ný með sólina að gera. Annars er þetta mjög milt og gott veðurfar það er bara verst að það rignir lítið eftir miklar rigningar í maí.“