Skoðun

Verð­bólgu­varnir á ferða­lögum

Björn Berg Gunnarsson skrifar

Það er dýrt á Íslandi, eins og okkur leiðist seint að benda á. Raunar á gamla góða íslenska veðrið á hættu að missa öruggt sæti sitt sem það fyrsta sem við fussum og sveium yfir þegar okkur dettur ekkert betra í hug. “...hvað heldurðu að það hafi kostað?” er býsnast á innsoginu í lok einhverrar yfirgengilega óáhugaverðrar reynslusögu. Veðrið reyndi að klóra í bakkann í maí en ætli verðbólgan hafi ekki vinninginn fram að fyrstu haustlægð í það minnsta.

Verðbólgan er þó ekki eingöngu bundin við klakann heldur virðist nokkuð almenn alþjóðleg eftirköst þeirra aðgerða sem gripið var til svo verja mætti fjárhag heimila og fyrirtækja meðan á bölvuðum Covid faraldrinum stóð. Það var víst ekki ókeypis að prenta alla þessa peninga og einhvern veginn braust kostnaðurinn fram. Sem dæmi má nefna að í Svíþjóð hefur verðlag hækkað um 20% frá því faraldurinn hófst og raunlaun íbúanna rýrnað töluvert. Ef hugurinn stefnir út er því ekki úr vegi að spyrja sig hvort reikningurinn verði sá sami og síðast.

Hærra verðlag á áfangastað

Krónan okkar hefur vissulega verið að mestu til friðs að undanförnu og gengisbreytingar einar og sér gera ferðalög til útlanda væntanlega ekki dýrari en síðast þegar við hættum okkur út fyrir landsteinana. Á flestum áfangastöðum Íslendinga í leit að d-vítamíni hefur verðbólgan þó verið merkilega mikil undanfarin misseri og verðlag þar gæti því komið nokkuð á óvart.

Vegna þessa ættum við að velja á milli tveggja valkosta, sé fararsnið á okkur. Annað hvort gerum við ráð fyrir meiri útgjöldum þegar út er komið eða reynum að vega gegn þessari verðbólgu með hugvitið og nokkur einföld ráð að vopni. Áhugafólk um hið síðarnefnda gæti ef til vill sparað sér nokkrar evrur með því að líta til eftirtalinna atriða.

Settu þig í spor heimamanna

Auðvitað viltu njóta þarlendrar matargerðar og verðlauna þig eftir allt þrammið eða sólarleguna með góðri máltíð. Af hverju ekki að fara alla leið og borða þar sem innfæddir, meðvitaðir um budduna og verðbólguna, borða? Gott ef það verður ekki mun eftirminnilegri upplifun.

  • Forðastu veitingastaði á vinsælum ferðamannastöðum. Það er góð ástæða fyrir því að við rekumst þar sjaldan á heimamenn.
  • Gæddu þér á ódýrari matseðli með því að leggja ríkari áherslu á hádegisverðinn í stað kvöldverðar. Mundu svo að vínflaska er oft talsvert dýrari en vín hússins í könnu.
  • Notaðu netið til að leita uppi matsölustaði sem heimamenn mæla með.
  • Það er óþarfi að vera feiminn við götubita annað slagið.
  • Líttu á matseðla og ákveddu sem flestar máltíðir áður en þú heldur út. Ekki láta galtóman og veinandi magann velja fyrir þig þegar þú ert úti.
  • Íhugaðu að bóka hótelherbergi án morgunverðar og rölta þess í stað í nálæg bakarí.

Haltu þig við útgjaldaáætlun

Ekki halda að þú munir hafa mikinn tíma eða áhuga á að fylgjast mjög náið með útgjöldunum þegar út í sólina er komið. Ákvörðun um hámarksútgjöld til tiltekinnar neyslu áður en út er er haldið ætti þó að hjálpa til.

Dæmi um slík hámörk eru hámarkskostnaður við veitingar, samgöngur, gistingu, skemmtanir og verslun. Auðveldast er að halda sig innan slíks ramma með því að bóka sem mest fyrirfram.

Hvaða greiðsluleiðir henta?

Forðastu hraðbanka og að skipta peningum úti. Hraðbankar á vinsælum ferðamannastöðum, hótelum og flugvöllum geta verið sérlega varasamir vegna hárra gjalda. Ef þú þarft að fara í hraðbanka getur verið að bestu kjörin fáist í stórum bönkum. Taktu með þér það reiðufé sem þú nauðsynlega þarft en sennilega er þó best að nota kreditkortið. Þegar spurt er hvort þú viljir greiða í íslenskum krónum eða gjaldmiðli viðkomandi lands skaltu velja hið síðarnefnda, það er almennt ódýrara.

Hafðu í huga að greiðslu með kreditkorti gætu fylgt tryggingar, til dæmis við leigu á bílaleigubíl. Kannaðu vandlega hvort tryggingar sem boðið er upp á við leiguna sé jafnvel þegar að finna á kortinu.

Notaðu almenningssamgöngur

Vertu með á hreinu hvernig hagkvæmast er að komast frá flugvellinum og ferðast milli áfangastaða. Samgöngukort fást víða og ýmsir afslættir geta boðist þeim sem duglegust eru að leita á netinu. Í flestum borgum er auk þess hægt að grafa upp fría leiðsögn í símann um helstu ferðamannastaði.

Leitaðu uppi tilboð

Hér kemur fyrirhyggjan að góðum notum. Hafir þú þegar ákveðin hótel í huga skaltu athuga hvort mögulega fáist afslættir með því að skrá sig sem notanda á vefsíðum þeirra. Sé langt í ferðalagið getur auk þess borgað sig að skrá sig á póstlista og góma tilboð þegar þau bjóðast.

Fjöldi vefsíðna birtir tilboð á hótelgistingum með löngum fyrirvara, mjög stuttum fyrirvara eða ef bókaðar eru tiltekið margar nætur, svo fáeitt sé nefnt. Það sama gildir um bílaleigubíla og jafnvel skemmtanir.

Dýrustu ferðalögin eru alls ekki alltaf þau skemmtilegustu. Gerum ráð fyrir því að allt sé orðið dýrara úti, rétt eins og hér heima og verum sniðugir og gagnrýnir neytendur. Við getum ekki annað en grætt á því.

Höfundur er fjármálaráðgjafi sem meðal annars býður upp á ráðgjöf um lífeyrismál og sparnað á bjornberg.is.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×