Mbl.is greindi frá dómsniðurstöðunni í dag. Óskar Andri Jónsson, sem verður 28 ára á árinu, hlaut þriggja ára dóm. Þá var hann dæmdur til að greiða fórnarlambinu fimm milljónir króna í bætur. Miska- og skaðabótakrafa í málinu hljóðaði upp á 150 milljónir króna.
Það var í október í fyrra sem karlmaður féll niður 23 steintröppur við Moe's bar í Jafnaseli í Reykjavík. Karlmaðurinn slasaðist alvarlega og reyndist ekki unnt að ræða almennilega við hann vegna slyssins, sem í ljós kom að var fólskuleg árás. Myndbandsupptaka úr öryggismyndavél reyndist lykilgagn í málinu. Þar mátti sjá Óskar Andra koma aftan að manninum þar sem hann stóð utandyra efst í tröppunum.
Óskar Andri sparkaði í bak mannsins þannig að hann féll niður steintröppurnar 23. Við það hlaut hann höfuðkúpubrot, dreifðar blæðingar í og við heila beggja vegna, alvarlegan og varanlegan heilaskaða. Heilaskaðinn felur í sér hugræna skerðingu, málftruflanir og takmarkaðan málskilning.