Lífið

Sló heimsmet þegar hann leysti Rubiks-kubb á ótrúlegum tíma

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Max Park bíður eftir kallinu til að geta hafist handa.
Max Park bíður eftir kallinu til að geta hafist handa. Skjáskot/Youtube

Heimsmetið í lausn Rubiks-kubbs féll í morgun. Hinn 21 árs gamli Max Park sló metið þegar hann leysti kubbinn, sem var af hefðbundinni 3x3x3-gerð, á 3,13 sekúndum.

Fyrra metið átti Yusheng Du sem leysti kubbinn á 3,47 sekúndum í Wuhu í Kína í nóvember 2018. Hann var þá nítján ára. 

Heimsmetið hafði því staðið í tæp fimm ár þegar það var slegið í morgun. Hér fyrir neðan má sjá Max Park slá heimsmetið við mikil fagnaðarlæti viðstaddra.

Heimsmeistari í fjölda greina

Á Rubiks-keppnismótum sem þessum er keppt í tveimur greinum. Annars vegar hröðustu stöku lausn á kubbi og hins vegar hröðustu meðallausn, þar sem er tekinn meðalhraði fimm lausna.

Max Park er ansi þekkt nafn í Rubiks-kubbaheiminum í dag, hann hefur unnið 401 keppni á vegum Heims­kubba­sam­bandsins (WCA) og á fjölda heimsmeta.

Max Park nýbúinn að slá heimsmetið í lausn á 3x3x3-Rubik's-kubbi í morgun. Skjáskot/Youtube

Í raun á hann svo gott sem öll heimsmet í bæði stakri lausn og meðallausn Rubiks-kubba frá 3x3x3-kubbum upp í 7x7x7-kubba. 

Eina heimsmetið sem hann á ekki er í meðallausn á 3x3x3-kubbi. Þar er hann með næsthraðasta tímann frá upphafi en heimsmetið á þar hinn 21 árs gamli Yiheng Wang.

Saga Park er raunar ansi merkileg en þegar hann var tveggja ára gamall var hann greindur með alvarlega einhverfu. Foreldrum hans var tjáð að hann þyrfti mikla umönnun alla ævi og að hreyfigetu hans yrði verulega hamlað. Til að hjálpa honum að efla hreyfigetu sína gaf móðir Park honum Rubiks-kubb og varð hann strax dolfallinn. 

Hann fann sannarlega sína fjöl þar og hefur náð að blómstra á vettvangi Rubiks-kubbsins. Hér fyrir neðan má sjá myndband um sögu Max Park sem faðir hans segir frá:


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×