Innlent

For­sætis­ráðu­neytið kaupir sið­fræði­lega ráð­gjöf

Árni Sæberg skrifar
Eyja Margrét J. Brynjarsdóttir, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirrita samninginn.
Eyja Margrét J. Brynjarsdóttir, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirrita samninginn. Stjórnarráð Íslands/Anton Brink

Forsætisráðuneytið og Háskóli Íslands, fyrir hönd Siðfræðistofnunar, hafa gert með sér samning um ráðgjöf stofnunarinnar til stjórnvalda um siðferðisleg efni og gerð kennsluefnis um siðareglur. Samningurinn gildir til tæplega eins árs og kostar stjórnvöld alls sjö milljónir króna.

Í tilkynningu á veg Stjórnarráðsins segir að samkvæmt samningnum skuli Siðfræðistofnun vera forsætisráðuneytinu til ráðgjafar í siðfræðilegum efnum á samningstímanum auk þess sem ráðuneytið geti óskað eftir ráðgjöf um einstök mál, þar með talið fyrirhugaða lagasetningu.

Þar að auki muni Siðfræðistofnun í samvinnu við forsætisráðuneytið vinna að gerð kennsluefnis, námskeiða og handbóka um siðareglur ráðherra og siðareglur starfsfólks Stjórnarráðsins. Þá verði skipulögð málþing um siðareglur og siðferði í opinberum störfum annars vegar og um gervigreind hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×