Á hluthafafundi VÍS, sem lauk rétt í þessu, var tillaga um hækkun hlutafjár vegna kaupanna samþykkt með tæplega 83 prósent greiddra atkvæða, samkvæmt upplýsingum Innherja. Á móti voru hins vegar hluthafar sem áttu samtals 235,6 milljónum hluta að nafnvirði, eða yfir 17 prósent greiddra atkvæða. Mætt var á fundinn fyrir hönd hluthafa sem eiga samanlagt um 73,9 prósenta hlut í VÍS.
Hluthafar Fossa fá greidda 245 milljón nýja hluti í VÍS, sem jafngildir 12,62 prósentum hlutafjár eftir aukninguna.
Talsverð umræða hafði verið á meðal hluthafa og annarra markaðsaðila um verðlagningu á Fossum í aðdraganda fundarins.
Þannig hafði Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis lífeyrissjóðs, lýst því yfir fyrr vikunni að hann sæi ekki fyrir sér að Gildi myndi samþykkja tillöguna um kaup VÍS á Fossum. Verðmiðinn, sem hljóðar upp á liðlega 4,2 milljarða króna miðað við núverandi gengi tryggingafélagsins, væri of hár að mati Gildis sem er þriðji stærsti hluthafinn í VÍS með um 9,2 prósenta hlut.
Stjórn VÍS birti í gær uppfærða kynningu um yfirtökuna til þess að bregðast við fyrirspurnum hluthafa, meðal annars varðandi forsendur að baki verðlagningu Fossa. Þar kom fram að samið hafi verið um ákvæði í kaupsamningi sem takmarka áhættu VÍS og tryggja hagsmuni félagsins með tilliti til skattamála, kauprétta starfsmanna, framlags lykilmanna ásamt öðrum viðeigandi rekstrarþáttum. Til að mynda er ákvæði um 36 mánaða bann við framsali, sölu og veðsetningu þeirra hluta sem eigendur Fossa fá afhenta.
„Óframseljanleg bréf eru alla jafna umtalsvert verðminni en framseljanleg bréf. Auk þess tengir það saman hagsmuni kaupenda og seljenda, sem verða áfram í lykilhlutverki við að auka arðsemi allra hluthafa,“ sagði í kynningunni.
Kaupverðið á Fossum lækkaði lítillega frá því sem fyrst var gert ráð fyrir í viljayfirlýsingu vegna kaupanna um miðjan febrúar, eða úr 260 milljónum hluta að nafnvirði í 245 milljónir hluta
Áætlað er að samlegð af samruna VÍS og Fossum fjárfestingabanka nemi 650 til 750 milljónum króna á ári og komi inn að fulla eftir árið 2025. Gert er ráð fyrir að langtíma arðsemismarkmið hækki úr 1,5 krónum á hlut í yfir 2,5 krónur á hlut vegna samlegðar og möguleika til að hraða uppbyggingu fjárfestingarbanka og eignastýringar, samkvæmt áætlunum stjórnenda félaganna.
Hluthafar sem ráða samanlagt yfir tveimur þriðju greiddra atkvæða á hluthafafundinum þurftu að samþykkja kaupin. Eignarhlutur lífeyrissjóða í VÍS nemur samtals vel yfir fimmtíu prósentum.
Markaðsvirði VÍS er í dag ríflega 29 milljarðar en hlutabréfaverð félagsins hefur nánast staðið í stað á síðustu tólf mánuðum.
Stærstu hluthafar Fossa eru hjónin Sigurbjörns Þorkelsson og Aðalheiður Magnúsdóttir en þau eiga 45 prósenta hlut. Þá fer Haraldur I. Þórðarson, forstjóri fjárfestingabankans, með 25 prósenta hlut og Steingrímur Arnar Finnsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Fossa, með 17 prósenta hlut.