Íslenski boltinn

Meistarabanarnir taka á móti Blikum í kvöld: „Þetta verður hörkuleikur“

Aron Guðmundsson skrifar
Álfhildur Rósa, fyrirliði Þróttara
Álfhildur Rósa, fyrirliði Þróttara Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Það dregur til tíðinda í kvöld þegar að átta liða úr­slit Mjólkur­bikars kvenna í knatt­spyrnu hefjast og í Laugar­dalnum er á dag­skrá stór­leikur Þróttar Reykja­víkur og Breiða­bliks.

Breiða­blik komst nokkuð örugg­lega á­fram í átta liða úr­slitin með sjö marka sigri á Fram á meðan að Þróttarar gerðu sér lítið fyrir og slógu út ríkjandi bikar­meistara Vals.

Álf­hildur Rósa Kjartans­dóttir, fyrir­liði Þróttar, segir liðið taka með sér já­kvæða hluti og sjálfs­traust úr síðustu um­ferð inn í leik kvöldsins.

„Það var gott að byrja keppnina af þeim krafti sem við gerðum í sigur­leiknum gegn Val, það eykur sjálfs­traustið hjá okkur en að sama skapi vitum við að hver leikur á sitt eigið líf og leikur kvöldsins getur spilast hvernig sem er.

Auð­vitað hjálpar þessi sigur­leikur gegn Val okkur en á sama skapi kemur lið Breiða­bliks með fullt sjálfs­traust inn í þessa viður­eign eftir að hafa unnið ÍBV á dögunum í deildinni á meðan að við töpuðum fyrir Kefla­vík.“

Álf­hildur segir leik­menn Þróttar sam­stíga með það að vilja komast strax aftur á sigur­braut eftir fremur ó­vænt tap á dögunum.

„Það var ekki góður leikur af okkar hálfu og við viljum svara fyrir það. Svo er bikarinn bara allt önnur keppni og maður veit ein­hvern veginn aldrei hvernig þeir leikir spilast.“

Þróttur og Breiða­blik hafa ekki mæst til þessa á yfir­standandi tíma­bili en ýmsar vís­bendingar má þó draga út frá stöðu liðanna í Bestu deildinni.

Að­eins þrjú stig skilja á milli þeirra í öðru og þriðja sæti Bestu deildarinnar.

„Það býr mikill hraði í þessu Breiða­bliks liði og þær eru ó­trú­lega góðar sóknar­lega. Við vitum því að þetta verður hörkuleikur. Þetta eru tvö lið sem vilja þrá það að vinna alveg rosa­lega mikið.“

Hvernig finnst þér spila­mennska liðsins hafa þróast á yfir­standandi tíma­bili?

„Mér finnst hafa gengið vel hjá okkur, auð­vitað höfum við samt sem áður tekið ein­hver feil­spor en mér finnst við vera mjög vel spilandi.“

Sæti í undan­úr­slitum Mjólkur­bikarsins í húfi í kvöld og ekki hægt að segja annað en að veður­fars­legar að­stæður bjóði upp á frá­bært um­hverfi fyrir stór­leikinn í Laugar­dalnum. Álf­hildur vill sjá fulla stúku af fólki á heima­velli Þróttar.

„Við viljum helst fylla völlinn. Stuðnings­mennirnir okkar hafa verið ó­trú­lega dug­legir við að mæta á völlinn á tíma­bilinu og styðja okkur á­fram. Ég er því að búast við að sjá fulla stúku í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×