Erlent

Kona látin eftir árás við Neuschwan­stein-kastala

Atli Ísleifsson skrifar
Neuschwanstein er að finna nærri bænum Hohenschwangau, sunnarlega í Bæjaralandi og þykir einn fallegasti kastali í heimi.
Neuschwanstein er að finna nærri bænum Hohenschwangau, sunnarlega í Bæjaralandi og þykir einn fallegasti kastali í heimi. AP

Kona er látin og önnur særð eftir árás manns nærri Neuschwanstein-kastala í suðurhluta Þýskalands, einum vinsælasta ferðamannastað landsins.

Í frétt DW segir að árásin hafi átt sér stað á mannmargri brú sem fræg er fyrir að bjóða upp á gott útsýni yfir kastalann. Á maðurinn að hafa ýtt konunum fram af brúnni eftir að hafa reynt að ráðast á þær kynferðislega.

Talsmaður yfirvalda segir árásarmanninn vera þrítugan bandarískan karlmann. Hann hafi flúið af vettvangi eftir árásina en sé nú í haldi lögreglu.

Önnur kvennanna var 21 árs og hin 22 ára. Þær voru báðar erlendir ferðamenn, en yfirvöld hafa ekki gefið upp þjóðerni þeirra. 

Samkvæmt heimildum Bild eiga konurnar að hafa verið bandarískar, líkt og árásarmaðurinn. Eigi þær að hafa kynnst manninum í göngu á svæðinu. Árásin átti sér stað um klukkan 14:40 að staðartíma. 

Neuschwanstein er að finna nærri bænum Hohenschwangau, sunnarlega í Bæjaralandi og þykir einn fallegasti kastali í heimi. Lúðvík II konungur lét reisa kastalann á sínum tíma og flutti loks inn 1886. Hann lést þó skömmu síðar. Skreytingar kastaland voru tileinkaðar verkum tónskáldsins Richard Wagner.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×