Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna greinir frá því að konur og börn séu stór hluti þeirra sem saknað er. Einungis karlmenn hafi lifað af, svo vitað sé.
Jeremy Laurence, talsmaður mannréttindaskrifstofunnar, segir atburðinn varpa ljósi á þá þörf sem ríkir á því að rannsaka betur mál sem varða við fólkssmygl.
Níu manns hafa verið handteknir í kjölfar slyssins. Þeir eru grunaðir um að hafa staðið að smygli á fólki frá Líbíu til Evrópu.
Enn er verið að rannsaka aðdraganda slyssins. Í frétt BBC er haft eftir tveimur eftirlifendum að bátur landhelgisgæslunnar hafi fest reipi við bát flóttafólksins sem varð til þess að báturinn ruggaði til og sökk í kjölfarið.
Þá er einnig haft eftir vitnum að starfsmenn á bát landhelgisgæslunnar hafi bundið reipi við bát flóttafólksins um þremur klukkustundum áður en slysið átti sér stað. Fólkið á bátnum hafi þá óttast að það yrði til þess að bátnum myndi hvolfa.
Gríska fréttablaðið Kathimerini hafði eftir heimildum að þau hafi þá losað reipið til þess að geta haldið leið sinni til Ítalíu áfram og í leiðinni hafnað allri hjálp.
Sú frásögn er þó í ósamræmi við frásögn Alarm Phone, samtaka sem veita flóttafólki á sjó stuðning. Samtökin sendu grísku landhelgisgæslunni tölvupóst á þriðjudag þess efnis að allt að 750 manns væru nauðstaddir um borð á bátnum.
Verið er að rannsaka aðild grísku landhelgisgæslunnar vegna málsins.