Þessi ömurlegu tíðindi staðfesti Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburgar í samtali við handball-world eftir leikinn í dag. Þetta er í þriðja skipti sem Gísli Þorgeir fer úr axlarlið en síðast gerðist það fyrir tveimur árum síðan.
„Ég er miður mín yfir þessum meiðslum hjá Gísla Þorgeiri en hann verður lengi frá vegna þeirra. Við munum standa þett við bakið á honum enda framtíðarleikmaður hjá félaginu. Ég er þess fullviss að hann mun koma sterkari til baka þegar hann jafnar sig,“ sagði Wiegert.
Gísli Þorgeir var á dögunum kjörinn besti leikmaður þýsku efstu deildarinnar á nýlokinni leiktíð. Gísli Þorgeir skoraði 159 mörk og gaf 107 stoðsendingar fyrir Magdeburg sem hafnaði í öðru sæti deildarinnar.
Fyrr í vetur skrifaði Gísli Þorgeir undir nýjan samning við Magdeburg sem gildir til ársins 2028.