Innlent

Rigningin færist til austurs

Samúel Karl Ólason skrifar
Rigningin á að færa sig til austurs á morgun.
Rigningin á að færa sig til austurs á morgun. Vedur.is

Von er á rigningu á landinu í dag og á morgun. Í dag er rigning á sunnan- og vestanverðu landinu en það á svo að snúast við á morgun með norðlægri átt.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands eru skilin sem hafa valdið rigningu á vestanverðu landinu að trosna smám saman og dregur úr vætu þegar líður á daginn. Í öðrum landshlutum á að vera skýjað og þurrt en létta á til á Austurlandi.

Hiti í dag verður á bilinu sjö til þrettán stig en upp undir tuttugu á norðaustanverðu landinu.

Önnur lægð nálgast landið úr suðaustri og er því spáð meiri vindi á morgun og rigningu víða. Þó á að vera úrkomulítið á Suðvestur- og Vesturlandi. Spáð er svölu veðri um landið norðanvert á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Norðlæg átt 5-13 m/s og fer að rigna, en úrkomulítið vestanlands. Hiti 4 til 9 stig, en 9 til 16 stig sunnantil á landinu.

Á miðvikudag (sumarsólstöður):

Norðvestlæg eða breytileg átt 5-10 og dálítil væta með köflum. Hiti 6 til 15 stig, mildast sunnan- og austantil.

Á fimmtudag:

Fremur hæg breytileg átt og bjart með köflum, en dálítil væta austanlands. Hiti 8 til 15 stig.

Á föstudag og laugardag:

Suðaustlæg átt og dálítil væta með köflum, en lengst af þurrt um landið norðanvert. Milt í veðri.

Á sunnudag:

Hlý suðaustanátt og rigning eða súld, en úrkomulítið norðaustanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×