Innlent

„Jón hefur verið að fylgja stefnu flokksins og ég mun fylgja stefnu flokksins“

Árni Sæberg skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir er tekin við völdum.
Guðrún Hafsteinsdóttir er tekin við völdum. Vísir/Vilhelm

Guðrún Hafsteinsdóttir, nýsleginn dómsmálaráðherra, segir fyrirrennara sinn Jón Gunnarsson hafa verið gríðarlega öflugan í starfi. Hann hafi ýtt mikilvægum málum úr vör og hún muni sigla þeim örugglega í höfn og nefnir sérstaklega útlendingamálin, sem séu þau mikilvægustu í íslensku samfélagi.

Guðrún tók undir orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, þess efnis að landið væri komið að þolmörkum þegar kemur að móttöku innflytjenda og flóttafólks. Jón Gunnarsson hafi fylgt stefnu Sjálfstæðisflokksins í málaflokkinum. 

„Jón hefur verið að fylgja stefnu flokksins og ég mun fylgja stefnu flokksins,“ sagði Guðrún þegar hún ræddi við fréttamenn á tröppum Bessastaða eftir sinn fyrsta ríkisráðsfund.

Lengi beðið eftir lyklaskiptunum

„Ég finn fyrir mjög góðum stuðningi víðsvegar að úr samfélaginu og líka meðal minna flokksfélaga og það er gott og það hefur verið beðið eftir þessum degi lengi, sérstaklega á meðal minna stuðningsmanna, og það er líka gott og jákvætt. Ég er mjög þakklát fyrir þann stuðning sem ég finn,“ sagði Guðrún.

Fyrstu skref Guðrúnar verða lyklaskipti í dómsmálaráðuneytinu klukkan 13.

„Síðan mun ég setjast niður með ráðuneytisstjóra og starfsmönnum ráðuneytisins í beinu framhaldi og fara yfir málin og hvað er þar efst á baugi og brýnast.“ 

Guðrún sagði útlendingamálin brýnust og nefndi einnig lögreglulög og áfengislög. Samfélagið þróist og lögin þurfi að gera það með. Til dæmis sé engin löggjöf um netsölu með áfengi, sem sé þó þegar hafin.


Tengdar fréttir

Þrýst verði á Guð­rúnu að fylgja stefnu Jóns

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að staðan í útlendingamálum sé grafalvarleg og þrýstingur verði á Guðrúnu Hafsteinsdóttur, sem tekur við embætti dómsmálaráðherra í dag, að fylgja eftir stefnu Jóns Gunnarssonar í málaflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×