Erlent

Neita að hafa smyglað fólki

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Báturinn sökk síðastliðinn þriðjudag.
Báturinn sökk síðastliðinn þriðjudag. AP

Egypsku mennirnir sem handteknir voru vegna gruns um mansal í tengslum við mál fiskibáts sem yfirfullur var af flóttamönnum og hvolfdi út af ströndum Grikklands síðastliðinn miðvikudag hafa allir neitað sök. 

Enn er um fimm hundruð manns saknað eftir að bátnum, sem talinn er hafa ferjað allt að 750 manns, hvolfdi síðastliðinn miðvikudag.

Níu egypskir menn á aldrinum 20-40 ára eru grunaðir um fólkssmygl í tengslum við málið. Í frétt BBC segir að mennirnir hafi allir neitað sök.

Ný greining á hreyfingu nærliggjandi skipa kvöldið sem báturinn sökk gefur til kynna að fiskibáturinn hafi flotið hreyfingarlaus í að minnsta kosti sjö klukkustundir áður en honum hvolfdi. 

Í leiðinni fullyrðir gríska landhelgisgæslan að á þeim tíma hafi báturinn verið á ferð í átt að Ítalíu og farþegar hafi ekki þurft á hjálp að halda.

Hinir ákærðu voru dregnir fyrir dóm í Kalamata-borg í Grikklandi í dag.

Alexandros Dimaresis, lögmaður eins þeirra, fullyrti að skjólstæðingur hans væri saklaus og segir hann hafa greitt hinum raunverulegu smyglurum fyrir farið til Evrópu. 

Þá hafa pakistönsk yfirvöld að auki handtekið fjórtán manns í tengslum við málið. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×