Erlent

Urðu af milljónum vegna há­karla­bits

Máni Snær Þorláksson skrifar
Fiskurinn sem um ræðir má sjá hér á myndinni. Hann dugði ekki til þar sem hákarlabit fannst á honum við nánari skoðun.
Fiskurinn sem um ræðir má sjá hér á myndinni. Hann dugði ekki til þar sem hákarlabit fannst á honum við nánari skoðun. Skjáskot/YouTube

Veiðimenn bátarins Sensation voru sannfærðir um að þeir væru búnir að vinna veiðikeppnina Big Rock Blue Marlin sem haldin er í bænum Morehead City í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Fiskurinn sem þeir veiddu vó rúmlega 280 kíló og reyndist hann vera sá stærsti þetta árið. Veiðimennirnir á Sensation stóðu þó ekki uppi sem sigurvegarar keppninnar þetta árið.

Verðlaunaféð fyrir stærsta fiskinn var 2,77 milljónir bandaríkjadollara, um 378 milljónir í íslenskum krónum. Ofan á það var veitt 739.500 dollarar fyrir að veiða fyrsta fiskinn sem vegur meira en fimm hundruð pund, eða yfir 227 kíló. Alls héldu veiðimennirnir á Sensation því að þeir hefðu unnið rúmlega þrjár og hálfa milljónir dollara, sem samsvarar um 478 milljónum í íslenskum krónum.

Þeir fengu þó ekki verðlaunaféð, þrátt fyrir að fiskurinn hafi verið sá stærsti. Ástæðan fyrir því er sú að við nánari skoðun kom bitsár í ljós á fiskinum sem þeir veiddu. Svo virtist vera sem fiskurinn hafi verið bitinn af hákarli.

Reglur keppninnar varðandi þetta eru skýrar, þeir fiskar sem eru særðir þegar þeir eru veiddir teljast ekki með. Þessi regla er sett til að koma í veg fyrir að veiðimenn særi fiskana áður en þeir eru veiddir. Þá sé einnig auðveldara að veiða fiska sem hafa orðið fyrir barðinu á hákörlum eða öðrum sjávarverum.

Greg McCoy, kafteinn á Sensation, segir í samtali við Washington Post að liðið sitt hafi ekki svindlað. Þeir hafi haldið að fiskurinn væri löglegur þegar þeir komu með hann í land. Hann segir að þeir hafi náð fisknum í land á síðasta klukkutímanum á síðasta degi keppninnar, það hafi tekið sex klukkustundir. Því sé erfitt að kyngja því að þeir hafi ekki unnið keppnina með fisknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×