Manneskja sem tengist fyrirtækinu Stjörnugrís, sem er eina af fjórum svínasláturhúsum landsins sem notar gasdeyfingu við slátrun svína, segir svínin tryllast þegar þau eru gösuð. Sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun staðfestir í samtali við fréttastofu að svín upplifi óþægindi í gasklefa, gasið valdi þeim stressi, þau bakki og reyni að komast úr aðstæðum. Linda Karen Gunnarsdóttir, formaður Dýraverndunarsambands Íslands, segir málið hörmulegt og ljóst að deyfing svína með koltvíoxíðgasi sé ómannúðleg og grimm.
„Einnig veldur þetta gas mikilli köfnunartilfinningu hjá dýrunum það er verið að dýfa þeim ofan í alltaf meira og meira magn af gasi og þau byrja að berjast um í ofboði og á endanum þá kafna dýrin og þetta er ekki að samræmast mannúðlegri aflífun ef dýrin eru að há ákveðið dauðastríð fyrir aflífunina, við viljum ekki að aflífun dýra sé svona,“ segir Linda Karen.
Í lögum um velferð dýra komi fram að aflífun þeirra eigi að vera skjót og sársaukalaus. „Dýraverndunarsamband Íslands fer fram á það að deyfing svína með koltívíoxíðgasi verði stöðvuð hér á landi og verði bönnuð með lögum.“
Sigurður Kári Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður Stjörnugríss, segir innanbúðarlýsingar um gösun svína hjá fyrirtækinu sem fram koma í frétt á vef Vísis ekki réttar að mati fyrirtækisins.
„Viðbrögð félagsins eru auðvitað þau að meðan að boðið er upp á kjöt og fiskmeti af hvaða tagi sem er til manneldis þá er ljóst að dýrin verða aflífuð og þeim slátrað. Reglur um það hvernig á að standa að slátrun dýra þær eru settar af sérfræðingum á sviði dýravelferðar og það eina sem Stjörnugrís gerir er að fylgja þeim reglum,“ segir Sigurður Kári. Slátrun í sláturhúsum Stjörnugríss fari fram undir eftirliti opinberra aðila og þeir hafi ekki gert athugasemdir um hvernig staðið er að þessum málum hjá félaginu.