Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur rannsakað Hunter Biden fyrir skattalagabrot frá árinu 2018. Hann var einnig sakaður um að brjóta vopnalög með því að eiga skammbyssu þrátt fyrir að hann væri eiturlyfjafíkill. Biden viðurkenndi að hann ætti við fíknivanda að stríða eftir að bróðir hans Beau lést árið 2015.
Sáttin þýðir að réttarhöld fara ekki fram í málinu. Brotið verður hreinsað af sakaskrá Biden heiðri hann skilmála samkomulagsins. Heimildir AP-fréttastofunnar herma að saksóknarar fari líklega fram á skilorðsbundna refsingu fyrir skattalagabrotin. Dómari tekur þó endanlega ákvörðun um refsingu Biden.
Skattsvik Biden, sem er 52 ára gamall, nema um 1,2 milljónum dollara yfir tveggja ára tímabil samkvæmt heimildarmönnum Washington Post. David Weiss, alríkissaksóknari í Delaware, sem lagði fram ákæruna á hendur Hunter Biden var skipaður af Donald Trump og sat áfram eftir forsetaskiptin til þess að halda samfellu í rannsókninni þrátt fyrir saksóknurum í öðrum umdæmum væri skipt út.
Efni í áframhaldandi árásir repúblikana á forsetann
Talsmaður Hvíta hússins vildi ekki tjá sig um mál Hunters Biden að öðru leyti en að forsetinn og eiginkona hans elskuðu son og styddu hann í að byggja sig upp aftur.
Þrátt fyrir að Biden hafi aðeins játað á sig minniháttar brot sem tengjast ekki föður hans forsetanum er næsta víst að repúblikanar reyni að nýta sér það í aðdraganda forsetakosninga næsta árs. Þeir standa nú fyrir rannsókn í fulltrúadeildinni á meintum glæpum Biden forseta og fjölskyldu hans. Þeim hefur þó ekki tekist að sýna fram á í hverju þeir glæpir felast.
James Comer, formaður eftirlitsnefndar fulltrúadeildarinnar, segir að samkomulag Biden við saksóknara hafi engin áhrif á rannsókn nefndar hans á forsetasyninum.
Hunter Biden kom við sögu í fyrra skiptið sem Bandaríkjaþing kærði Donald Trump fyrir embættisbrot. Þá var Trump sakaður um að misnota vald sitt þegar hann reyndi að kúga Volodýmýr Selenskíj, forseta Úkraínu, til þess að rannsaka son Joes Biden sem þá var líklegasti keppinautur Trump um forsetastólinn. Lét Trump stöðva hernaðaraðstoð til Úkraínu sem Bandaríkjaþing hafði samþykkt tímabundið á meðan hann og bandamenn hans reyndu að fá stjórn Selenskíj til þess að aðstoða sig pólitískt.