Erlent

Lést við að bjarga dóttur sinni

Máni Snær Þorláksson skrifar
Dustin Harker lést við að bjarga þrettán ára dóttur sinni.
Dustin Harker lést við að bjarga þrettán ára dóttur sinni. GoFundMe/Sharon Neu Young

Faðir þrettán ára stelpu lét lífið við að bjarga dóttur sinni eftir að gúmmíbát þeirra hvolfdi í Arkansas ánni í Bandaríkjunum. Faðirinn var í bátnum ásamt fjórum börnum sínum þegar báturinn hvolfdi.

Dustin Harker, taugasjúkdómafræðingur frá Kansas, er faðirinn sem um ræðir. Camille, þrettán ára dóttir hans festist undir bátnum þegar hann fór á hvolf. Harker tókst að snúa bátnum við og koma dóttur sinni og sjálfum sér aftur um borð í bátinn.

Þau, ásamt öllum öðrum sem voru í bátnum, komust aftur í land. Þegar þangað var komið var Harker að tala en skömmu síðar missti hann meðvitund. Sharon Neu Young, mágkona Harker, segir í yfirlýsingu, sem birt var í staðarmiðlinum Cañon City Daily Record að skyndihjálp hafi ekki borið árangur. 

Upphaflega var talið að Harker hafi drukknað en við krufningu kom í ljós að hann hafi látið lífið vegna tveggja blæðinga í heila. „Þeir telja að höfuð hans hafi rekist í steina í ánni þegar hann kastaðist frá bátnum,“ segir Young í samtali við CBS.

Harker lætur eftir sig eiginkonu og þrettán börn. Yngsta barnið er fjögurra ára gamalt en það elsta er tuttugu og þriggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×