Fótbolti

Man Utd leggur fram þriðja og seinasta boðið í Mount

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mason Mount gæti verið á leið til Manchester United.
Mason Mount gæti verið á leið til Manchester United. Craig Mercer/MB Media/Getty Images

Manchester United mun í dag leggja fram sitt þriðja og líklega seinasta tilboð í enska landsliðsmanninn Mason Mount, leikmann Chelsea.

Talið er að tilboðið muni hljóða upp á um 55 milljónir punda, sem samsvarar um 9,6 milljörðum króna. Þá er einnig talið að forráðamenn United muni hóta því að snúa baki við samnigaviðræðunum ef Chelsea hafnar tilboðinu.

Mount á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea og því þykir forráðamönnum United 70 milljón punda verðmiðinn á leikmanninum of hár. Manchester-liðið hefur nú þegar lagt fram tvö tilboð í leikmanninn, það fyrra upp á 40 milljónir punda og það síðara upp á 50 milljónir.

Hinn 24 ára gamli Mason Mount hefur leikið allan sinn feril með Chelsea, ef frá eru talin tvö lánstímabil með Vitesse og Derby County. Hann hefur leikið 129 deildarleiki fyrir Lundúnaliðið og skorað í þeim 27 mörk.

Þá á hann einnig að baki 36 leiki fyrir enska landsliðið þar sem hann hefur skorað fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×