Ný stjórn FIBA Europe kom saman til fyrsta fundar í dag í Lubljana í Slóveníu þar sem Hannes var skipaður í embætti varaforseta sambandsins. Eitt af fyrstu verkefnum stjórnarinnar var að taka fyrir tillögu Jorge Garbajosa að þrem varaforsetum sambandsins og er Hannes einn þeirr þriggja að því er kemur fram í fréttatilkynningu KKÍ.
Hinir varaforsetarnir eru Matje Erjavec frá Slóveníu og Carmen Tocala frá Rúmeníu.
Sem varaforseti mun Hannes einnig sitja í framkvæmdaráði FIBA Europe, en framkvæmdaráð skipa níu manns, forseti, varaforsetar, gjaldkeri og fjórir aðrir stjórnarmenn.
Stjórn FIBA Europe er skipuð 25 einstaklingum og er kjörin til ársins 2027. Hannes mun sinna störfum varaforseta út starfstímabil stjórnarinnar.
„Skipun Hannesar í embætti varaforseta FIBA Europe er mikil viðurkenning fyrir það starf sem KKÍ og íslenskur körfubolti hefur unnið að á síðustu árum sem og persónuleg viðurkenning til Hannesar fyrir hans störf í alþjóðlegum körfubolta,“ segir í tilkynningu KKÍ.
Þá var Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, formaður KKÍ, einnig kjörin í fastanefnd FIBA Europe í Youth Commission (Unglinganefnd) til næstu fjögurra ára.