Innlent

Ætla að gera til­raunir með göngu­götu á Ísa­firði

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Veitingahúsagestir í sól og sumaryl á Ísafirði.
Veitingahúsagestir í sól og sumaryl á Ísafirði. Vísir/Vilhelm

Bæjar­ráð Ísa­fjarðar­bæjar vill gera til­raunir með að gera Hafnar­stræti í Skutuls­firði að göngu­götu á þeim dögum sem margir far­þegar skemmti­skipa eru í bænum. For­maður bæjar­ráðs vonast til þess að hægt verði að prófa nýtt fyrir­komu­lag nokkra daga strax í sumar.

„Við höfum aldrei prófað þetta áður,“ segir Gylfi Ólafs­son, for­maður bæjar­ráðs Ísa­fjarðar­bæjar í sam­tali við Vísi en um er að ræða hans eigin til­lögu. Hug­myndin er að Hafnar­stræti, frá gatna­mótum við Austur­veg verði göngu­gata milli kl. 09:00 og 15:00, að teknu til­liti til vöru­losunar og aksturs fatlaðra.

Í minnis­blaði sínu til bæjar­stjórnar vegna málsins leggur Gylfi til að miðað verði við saman­lagt 3000 far­þega skemmti­skipa. Það myndi þýða að gatan yrði að göngu­götu 30 daga á ári en það þótti full bratt fyrst um sinn.

Gylfi segir áherslu lagða á að göngugatan verði prófuð í sátt við íbúa.Vísir

Fimm til sex dagar á ári

„Það var upp­runa­lega hug­myndin en okkur langar fyrst til þess að prófa þetta með í­búum og datt þá í hug að miða frekar við 5000 far­þega sem eru fimm til sex dagar á ári og verður þetta því til­raun í sumar,“ segir Gylfi sem segir að lögð verði á­hersla á að gera þetta í sátt við íbúa.

Vonast er til þess að þetta bæti bæjar­brag og auki um­ferðar­öryggi gangandi, styðji við verslun í mið­bænum, í hús­næði eða sölu­vögnum og hvetji íbúa til þess að fara erinda sinna hjólandi eða gangandi þá daga sem margir far­þegar eru í höfn, að því er fram kemur í minnisblaðinu.

„Ég er að vona að við náum nokkrum dögum í sumar til þess að prufu­keyra þetta og þá getum við æft okkur enn frekar í vetur og komið fíl­efld til baka næsta sumar,“ segir Gylfi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×