Körfubolti

Fjár­festinga­sjóður ríki­stjórnar Katar kaupir hlut í þremur í­þrótta­liðum frá Was­hington

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Washington Wizards reið ekki feitum hesti á síðustu leiktíð.
Washington Wizards reið ekki feitum hesti á síðustu leiktíð. Rob Carr/Getty Images

Fjárfestingasjóður á vegum ríkisstjórnar Katar hefur keypt rúmlega fimm prósent hlut í þremur íþróttaliðum Washington-borgar í Bandaríkjunum. Er þetta talið vera í fyrsta sinn sem Katar fjárfestir í bandarískum íþróttaliðum.

Fréttaveitan AP greinir frá. Þar segir að sjóðurinn sé að kaupa rúmlega fimm prósent hlut í Washington Wizards og Mystics sem spila í NBA- og WNBA-deildunum í körfubolta sem og í íshokkíliðinu Washington Capitals.

Talið er að samningurinn sé virði 4,05 milljarða Bandaríkjadala [556 milljarða íslenskra króna]. Ekki er vitað til þess að fjárfestingasjóður á vegum ríkisstjórnar Katar, eða annarra landa, hafi áður fjárfest í bandarísku íþróttafélagi.

Wizards endaði í 12. sæti NBA-deildarinnar á síðustu leiktíð með 35 sigra en 47 töp. Mystics eru sem stendur í 3. sæti WNBA-deildarinnar með 8 sigra og 4 töp. Capitals endaði í 6. sæti af 8 liðum í sínum riðli NHL-deildarinnar á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×