Handbolti

Ein sú besta í heimi fann ástina í örmum þýsks hand­knatt­leik­s­kappa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stine Bredal Oftedal í leik með Noregi.
Stine Bredal Oftedal í leik með Noregi. Vísir/Getty Images

Stine Bredal Oftedal, ein albesta handknattleikskona heims, hefur fundið ástina, sá spilar einnig handbolta.

Hin 31 árs gamla Oftedal hefur verið á toppi handboltaheimsins undanfarin ár. Hún kemur frá Noregi og hefur verið fyrirliði landsliðsins sem hefur unnið hvert stórmótið á fætur öðru undir stjórn Þóris Hergeirssonar. Þrívegis hefur hún orðið heimsmeistari og fimm sinnum Evrópumeistari.

Nú er hún orðin ástarmeistari en í dag tilkynnti unnusti hennar, hinn þýski Rune Dahmke, að parið væri trúlofað. Það gerði hann á Instagram-síðu sinni. Þar stóð einfaldlega: „Svo þetta gerðist.“

Frá árinu 2017 hefur Oftedal spilað með Györ í Ungverjalandi. Hún var einnig kjörin besta handknattleikskona heims árið 2019. Unnusti hennar er sömuleiðis atvinnumaður í handbolta.

Hann spilar með þýska stórveldinu Kiel og er hluti af þýska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×