Innlent

Segir Kon­ráð hafa verið látinn fjúka fyrir að mæta í röngum buxum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Óskar spyr hver sé raunveruleg ástæða brottrekstrar Konráðs.
Óskar spyr hver sé raunveruleg ástæða brottrekstrar Konráðs. Meistaradeildin/Gunnar Freyr

Óskar Sæberg, lögfræðingur og talsmaður Konráðs Vals Sveinssonar, heimsmeistara í hestaíþróttum, segir að Konráði hafi verið vikið úr landsliðshópi Landssambands hestamanna fyrir að koma í röngum buxum á mót og mæta seint á liðsfund.

„Landsliðsnefnd LH legg­ur Gróu á Leiti til grund­vall­ar í stað staðreynda,“ seg­ir Óskar í samtali við mbl.is.

Vísir greindi frá því í dag að Konráð og Jóhann Rúnar Skúlason hefðu verið reknir úr landsliðshópnum en haft var eftir Guðna Halldórssyni, formanni Landssambands hestamanna, að Konráð gæti átt afturkvæmt ef hann bætti hegðun sína.

Jóhann Rúnar hafði áður verið látinn víkja úr hópnum vegna kynferðisbrotadóms og þá var greint frá því árið 2021 að hann hefði hlotið dóm fyrir heimilisofbeldi.

Guðni sagði brot Konráðs hins vegar af öðrum toga, án þess að útlista þau nánar.

„Brotin lutu að hegðunar og siðareglum landsliðsins sem geta verið fjölþætt. Það hefur verið ákveðið að tíunda ekki einstök mál gegn honum,“ sagði Guðni.

Að sögn Óskars var Konráð kallaður á fund í gær vegna atviks á Reykjavíkurmeistaramóti Fáks og tilkynnt um brottrekstur eftir fundinn.

„Þarna vil ég doka við og spyrja hver sé hin raun­veru­lega ástæða brottrekstr­ar Kon­ráðs,“ seg­ir Óskar. „Ég spyr því nefnd­ina, hvað gerði Kon­ráð svona slæmt að það rétt­læti að nefnd­in rjúki til og sparki heims­meist­ar­an­um okk­ar í burtu kort­eri fyr­ir heims­meist­ara­mót? Mér vit­andi hef­ur Kon­ráð hlotið tvær áminn­ing­ar fyr­ir aga­brot, aðra fyr­ir að mæta of seint á liðsfund og hina fyr­ir að mæta í vit­laus­um reiðbux­um,“ hefur mbl eftir Óskari.

Spurningar hafi vaknað um það hvort brottreksturinn tengdist raunverulega líkamsárás sem Konráð varð fyrir eftir að hafa bakkað á bifreið starfsmanna Alendis TV á fyrrnefndu Reykjavíkurmóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×