Enski boltinn

Arteta segir að Arsenal hafi verið sálar­laust þegar hann mætti á svæðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta hefur komið Arsenal aftur í hóp bestu liðanna í ensku úrvalsdeildinni.
Mikel Arteta hefur komið Arsenal aftur í hóp bestu liðanna í ensku úrvalsdeildinni. Getty/David Price

Mikel Arteta hefur gert flotta hluti sem knattspyrnustjóri Arsenal en hann segir að Arsenal hafi verið búið að týna sál félagsins þegar hann mætti á svæðið árið 2019.

Arteta þekkti vel til hjá Arsenal eftir að hafa spilað þar sem leikmaður undir stjórn Arsene Wenger en hafði þarna verið aðstoðarþjálfari Pep Guardiola hjá Manchester City í þrjú ár.

Hinn 41 árs gamli knattspyrnustjóri talar um það að tengingin á milli leikmanna Arsenal og stuðningsmanna félagsins hafi ekki verið til staðar þegar félagið spilaði á Emirates leikvanginum og að hann hafi verið staðráðinn í að breyta því.

„Þetta byrjaði fyrir meira en þremur árum síðan. Ég var aðstoðarmaður Pep hjá City og við vorum að mæta Arsenal. Ég sá þá að félagið hafði týnt sálinni,“ sagði Mikel Arteta í viðtali við spænska stórblaðið Marca.

„Það var engin ánægja í liðinu og það sást. Ég vissi að það væri möguleiki að fara yfir á hinn bekkinn fljótlega á eftir. Ég vissi líka að þetta félag er það stórt að það yrði að vera tenging á milli liðsins og stuðningsmannanna,“ sagði Arteta.

„Þetta hefur verið erfitt verkefni en núna er ég ánægður. Við höfum skýrt einkenni, það er samheldni í liðinu og við erum fullir af orku. Það er það stærsta í þessu. Frá toppi til táar þá eru allir að ýta í sömu átt,“ sagði Arteta.

Arsenal var stærsta hluti tímabilsins á toppnum en réð ekki við Manchester City á lokasprettinum.

„Það er enn mjög sárt að hafa misst af þessu eftir að hafa keppt við City í tíu mánuði. Svona eru bara íþróttirnar. Það er samt eftirtektarvert hvað við höfum náð að afreka með þessu unga liði. Það blasir við mínum augum núna,“ sagði Arteta.

„Okkur var refsað fyrir þessi þrjú jafntefli (á móti Liverpool, West Ham United og Southampton) og þá voru þrír eða fjórir mikilvægir leikmenn sem meiddust. Eftir það varð allt miklu flóknara,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×