Viðskipti innlent

Bankinn hafi brugðist trausti

Árni Sæberg skrifar
Bjarni Benediktsson segir Íslandsbanka hafa brugðist því trausti sem honum var sýnt.
Bjarni Benediktsson segir Íslandsbanka hafa brugðist því trausti sem honum var sýnt. Vísir/Vilhelm

Fjármálaráðherra segir ljóst af sátt Íslandsbanka og Seðlabanka Íslands að Íslandsbanki hafi brugðist því trausti sem honum var sýnt þegar ákveðið var að hann myndi sjálfur sjá um útboð á hlut ríkisins í bankanum.

„Þetta eru alvarleg brot og mér er efst í huga að mér finnst að bankinn hafi brugðist því trausti sem honum var sýnt og þar með brugðist í því verkefni sem honum var falið, að framkvæma þessa mikilvægu sölu á eignarhlut ríkisins í bankanum,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við fréttastofu.

Í dag var sátt Seðlabankans og Íslandsbanka birt. Þar eru útlistuð alvarleg brot bankans og niðurstaðan er sekt upp á 1,2 milljarða króna.

Í samantekt segir að niðurstaða fjármálaeftirlitsins hafi verið að stjórn og bankastjóri Íslandsbanka hafi ekki með fullnægjandi hætti innleitt stjórnarhætti og innra eftirlit sem tryggir skilvirka og varfærna stjórnun, sem birtist meðal annars í því að ekki var tryggt að bankinn uppfyllti lagakröfur sem gilda um veitingu fjárfestingarþjónustu og fylgni við innri reglur sem stjórn hans hefur sett.

Framhaldið ræðst af viðbrögðum Íslandsbanka

Treystir ríkissjóður Íslandsbanka til að framkvæma sölu á restinni af hluta ríkisins í bankanum?

„Það ræðst mjög mikið af þeim viðbrögðum sem við sjáum núna í kjölfarið, en ég tel að það standi upp á Bankasýsluna að útskýra hvað megi gera til að endurheimta það traust, sem augljóslega rofnar þegar aðstæður sem þessar skapast,“ segir Bjarni.

Hann segir að það sé ekki hans að segja til um það hvort Birna Einarsdóttir þurfi að sýna ábyrgð með því að segja starfi sínu lausu. Hún sagði í viðtali við fréttastofu á dögunum að hún íhugaði ekki stöðu sína vegna málsins.

Brotin alvarleg af mörgum ástæðum

Bjarni segir að þau brot sem útlistuð eru í sáttinni séu alvarleg af mörgum ástæðum.

„Í fyrsta lagi er hér um að ræða banka sem er í eigu ríkisins að verulegu leyti og við erum með eigendastefnu sem gengur út á það að menn gangi þannig fram að það sé til þess fallið að auka traust á fjármálamörkuðum. 

Í öðru lagi þá er þetta kerfislega mikilvægur banki, sem þýðir að allt sem bankinn gerir lýtur strangara regluverki að lögum og það hefur áhrif á traust til markaðarins í heild, hvernig kerfislega mikilvægu bankarnir ganga fram. 

Í þriðja lagi þá var um að ræða sérstakar samningsskuldbindingar við Bankasýsluna um að framkvæma tiltekið verk, lögum samkvæmt og nú liggur fyrir að ekki einungis voru almenn lög um efnið brotin, og fleiri en ein lög, heldur sömuleiðis innri reglur bankans. Þetta samanlagt er auðvitað afskaplega alvarlegt mál, sem maður gengur út frá að Bankasýslan muni krefjast að bankinn skýri fyrir eigandanum hvernig hann ætli að bregðast við.“

Hefur sagt frá upphafi að einhver þurfi að sæta ábyrgð

Bjarni segist hafa sagt frá upphafi að ef farið hefur verið á svig við lög og reglur þá þurfi það að hafa viðeigandi afleiðingar.

Hann segist þó ekki telja að nú sé tilefni til þess að koma á fót sérstakri rannsóknarnefnd um söluna á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Kallað hefur verið eftir því.

„Þetta er svona dæmigert frá stjórnarandstöðunni að kalla alltaf eftir nýrri skýrslu þegar hundrað síðna skýrsla birtist. Nú höfum við bæði skýrslu frá ríkisendurskoðanda og þessa skýrslu frá Fjármálaeftirlitinu en hvorug skýrslan ber með sér að það hafi einhvern veginn háð þeim sem var að framkvæma rannsóknina, að það hafi skort einhverjar valdheimildir. Þvert á móti, hérna sýnist mér að Fjármálaeftirlitinu hafi tekist að varpa mjög skýru ljósi á þá atburðarás sem var til rannsóknar og það sé komin niðurstaða sem við getum rætt um af einhverri yfirvegun án þess að byrja strax á því að kalla eftir enn einni skýrslunni. Þetta finnst mér vera bara einhver pólitískur skollaleikur sem hefur ekkert með kjarna málsins að gera,“ segir hann.

Fyrirkomulagi sölunnar ekki um að kenna

Bjarni segir það ekki vera því fyrirkomulagi, sem valið var fyrir söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka, að kenna hvernig fór.

„Við getum ekki sagt að þetta sé afleiðing af því að við höfum verið að flýta okkur eða höfum valið rangt fyrirkomulag. Menn eiga einfaldlega að fara að þeim lögum og reglum sem gilda í landinu og ég tala nú ekki um þeim reglum sem þeir hafa sjálfir sett sér og lofað að virða í samskiptum við þá sem málið varðar. Í þessu tilviki voru menn með samningsskuldbindingar við Bankasýsluna.“

Tekur undir að um áfellisdóm sé að ræða

Í dag hafa bæði forsætisráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra fordæmt sáttina og sagt hana kláran áfellisdóm yfir Íslandsbanka.

„Ég get alveg tekið undir það og það áfellisdómur yfir bankanum hversu margar reglur eru brotnar og víðtæk þessi brot eru. Þetta er mjög skaðlegt fyrir hagsmuni ríkisins og ég er þar bæði að hugsa um þetta markmið sem við höfum verið að vinna að núna í rúman áratug, að endurheimta traust á fjármálamörkuðum og því regluverki sem um það gildir. 

Það má svo sem segja að það sé vísbending um að regluverkið virki þegar við sjáum að eftirlitið stígur inn og beitir viðurlögum þegar menn fara út af sporinu. Það er auðvitað til þess fallið að efla trú á því að menn komast ekki upp með að brjóta reglurnar. Engu að síður er núna kominn júnímánuður ársins 2023 og við vorum að standa í þessari sölu fyrir rúmu ári síðan og þetta er auðvitað allt önnur atburðarás en við hefðum óskað okkur.“


Tengdar fréttir

Banka­sýsla ríkisins lýsir yfir miklum von­brigðum

Í fréttatilkynningu segir að Bankasýsla ríkisins lýsi yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögð Íslandsbanka við útboð á 22,5 prósent eignarhlut ríkisins í bankanum, í ljósi þess sem fram kemur í nýgerðri sátt bankans við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands. Boðað verður til hluthafafundar vegna málsins.

Sam­þykktu allar beiðnir starfs­manna um að taka þátt í út­boðinu

Regluvarsla Íslandsbanka samþykkti allar beiðnir starfsmanna um þátttöku í útboði á hlut ríkisins í bankanum í fyrra þrátt fyrir að aðeins fjórir starfsmenn og einn tengdur aðili væri flokkaður sem fagfjárfestar þegar útboðið hófst. Fjármálaeftirlitið telur þátttöku starfsmanna hafa skapað fjölmarga hagsmunaárekstra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×