Erlent

Starfs­maður fórst þegar hann sogaðist inn í flug­véla­hreyfil

Eiður Þór Árnason skrifar
Flugfélagið Delta Air Lines kannar nú orsök slyssins.
Flugfélagið Delta Air Lines kannar nú orsök slyssins. Getty/Nicolas Economou

Bandarískur flugvallarstarfsmaður fórst á föstudag þegar hann sogaðist inn í flugvélahreyfil á San Antonio alþjóðaflugvellinum í Texas. Bandarísk flugmálayfirvöld greina frá þessu og segja óljóst á þessari stundu hvernig þetta atvikaðist.

Málið er nú til rannsóknar en slysið átti sér stað á meðan flugvél Delta Air Lines frá Los Angeles lá við hlið flugstöðvarinnar með einn hreyfil í gangi.

Í yfirlýsingu frá San Antonio flugvellinum segjast stjórnendur vera harmi slegnir vegna málsins og vinni nú með yfirvöldum að rannsókn þess. Frekari upplýsingar verði veittar síðar.

Sky News fjallar um atvikið og hefur eftir flugfélaginu Delta Air Lines að það sé sömuleiðis harmi lostið vegna slyssins og yfir því að missa starfsmann sinn.

„Hjörtu okkar og stuðningur fara til fjölskyldu, vina og ástvina hans á þessum erfiða tíma,“ segir í yfirlýsingu flugfélagsins.

Svipað mál kom upp í Alabama seint á síðasta ári þegar flugvallarstarfsmaður dróst inn í flugvélahreyfil með þeim afleiðingum að hann fórst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×