Skoðun

Sólarlag

Gunnlaugur Stefánsson skrifar

Nú er stangaveiðin hafin af fullum krafti í ám og vötnum landsins. Þúsundir Íslendinga njóta lífsins í faðmi náttúrunnar við veiðar, og fjöldi útlendinga kemur gagngert til landsins til að veiða. Stangaveiðin er því drjúg tekjulind fyrir þjóðarbúið og dýrmæt fyrir menningu og atvinnulíf þjóðar. En þetta er viðkvæmt fjöregg eins og allt sem á líf sitt undir náttúrunni og umgengni við hana.

Opið sjókvíaeldi með frjóan norskan lax í austfirskum og vestfirskum fjörðum er baneitraður iðnaður og hrein ógn og árás á villta laxastofna. Allar rannsóknir og reynsla af opna eldinu í nágrannalöndum staðfesta það. Þá er er viðstöðulaust hellt ofan í íslensku kvíarnar alls konar eitri og lyfjum til að reyna að halda lús og fisksjúdómum í skefjum sem hefur lengi verið vandamál í eldisiðjunni. Tæpast geta svona afurðir talist lystugar og til þess fallnar að styrkja orðspor þjóðar um heilnæm matvæli.

Auk þess hafa rannsóknir staðfest að úrgangur úr eldiskvíunum stórskaði hryggningarsvæði og seiðauppeldi nytjafiska í fjörðunum.

Svo mun erfðablöndum norska eldislaxins útrýma villtum íslenskum laxastofnum og ómögulegt verður að bæta fyrir það. Það er óafturkræft.

Viljum við fórna íslenskum villtum laxastofnum fyrir norskt sjókvíaeldi? Samkvæmt skoðanakönnunum er um 70% þjóðar andvígur opnu sjókvíaeldi á frjóum norskum laxi.

Engar mótvægisaðgerðir né tækni er til sem kemur í veg fyrir að laxar sleppi úr opnum sjókvíum og blandist villta laxinum. Í Noregi hefur sístæður leki seiða úr kvíum verið afkastamestur við erfðablöndunina. Eldiseiðin verða að kynþroska fiskum í opnum sjó, ganga í árnar til að hrygna og þekkjast ekki í sjón frá villta laxinum.

Þá vega einstakar slysasleppingar þungt. T.d. þegar 81 þúsund norskir eldislaxar sluppu úr kví í Arnarfirði síðla sumars árið 2021. Til samanburðar þá er talið að villti íslenski laxastofninn telji u.þ.b. 50 þúsund laxa. Helsta mótvægisaðgerðin í kjölfar slysasleppinga er að setja út net í nágrenni kvíar. Nú hefur opinber nefnd skilað skýrslu og lagt til að netum verði fjölgað við slysasleppingar.

Samt hefur ekki frést af einum einasta stroklaxi sem náðst hefur í net í kjölfar slysasleppinga og hafa þó verið býsna margar og netin mörg. Þess er ekki getið í skýrslu stroklaxanefndarinnar.

Mótvægisaðgerðir geta hægt á útrýmingu villtra laxastofna, lengt líftímann um örfá ár, en ekki komið í veg fyrir skaðann. Mótvægisaðgerðir búa til falskt öryggi og skálkaskjól, fyrst og fremst fyrir stjórnmálamenn sem finnt best að vera með höfuð í sandi í stað þess að horfast í augu við staðreyndir og bregðast við samkvæmt því.

Ef við viljum varðveita villta íslenska laxinn, hlúa að vexti hans með virðingu við náttúruna, þá mótum við opinbera stefnu sem hættir öllu opnu sjókvíaeldi, sólarlagsákvæði sem gefur eldisiðjunni svigrúm til að pakka saman og leita sér verðugri verkefna.

Þar gæti landeldi í lokuðum og umhverfisvænum kvíum verið eftirsóknarvert. Þá er mikilvægt að stofnað verði til virkra mótvægisaðgerða fyrir byggðarlögin sem missa spón úr aski sínum við lok opna sjókvíaeldisins. Mikið er tímabært, að nefnd yrði stofnuð til að fjalla um það með aðgerðum.

Höfundur situr í stjórn Landssambands veiðifélaga og formaður Umhverfissamtakanna Laxinn lifir.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×