Tónlist

Ein­veran í æsku kveikjan að far­sælum tón­listar­ferli

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Nanna Bryndís Hilmarsdóttir söngkona ræddi við blaðamann um tónlistina og tilveruna.
Nanna Bryndís Hilmarsdóttir söngkona ræddi við blaðamann um tónlistina og tilveruna. Vísir/Vilhelm

„Ætli ég sé ekki svolítið prívat manneskja. Það er þó ekki meðvitað hjá mér að vera svona prívat heldur er það bara algjörlega út frá einhverjum svona þægindaramma. Mér finnst athygli stundum óþægileg nema þegar að ég fer upp á svið með tónlistina, þá líður mér vel,“ segir tónlistarkonan Nanna Bryndís Hilmarsdóttir. Blaðamaður hitti hana í kaffi og ræddi við hana um listina, lífið og nýtt sóló efni.

Nanna Bryndís Hilmarsdóttir var rétt skriðin yfir tvítugt þegar hún tók þátt í Músíktilraunum með félögum sínum með hljómsveit sem þau nefndu Of Monsters And Men. Nokkrum árum síðar voru þau farin að spila víðsvegar um heiminn með hvern smellinn á fætur öðrum og lífið þróaðist hratt að sögn Nönnu. 

Ásamt því að vera starfandi meðlimur hljómsveitarinnar er hún nú farin að gefa út sóló efni, sem hafði lengi blundað í henni, þar sem hún leyfir sér að vera einlæg og hrá í textasmíðinni og semja algjörlega út frá sjálfri sér.

Í spilaranum hér að neðan má sjá tónlistarmyndband við lagið Crybaby með Nönnu:

Kom sér að á börum í Keflavík

„Ég var mjög ung þannig séð þegar að tónlistaráhuginn kviknaði. Ég kem úr Garðinum í Suðurnesjabæ og sem barn var ég bara þar að leika mér út í móa og leyfa ímyndunaraflinu að fara á flug. Ég var mikið ein og sótti mikið í minn eigin hugarheim. Ég fer að læra á gítar þegar ég er þrettán ára og fór eiginlega strax að semja lög út frá því.“

Nanna kemur ekki út tónlistarfjölskyldu en átti þó frænda sem heitir Geiri sem var í hljómsveit í Eyjum á sínum yngri árum.

„Hann kenndi mér fyrstu gripin á gítarinn. Um leið og ég fékk gítar í hendurnar þá small þetta. Sömuleiðis það að semja. Þegar að ég var krakki þá var ég svo mikið að búa til sögur og sótti rosa mikið í það.“

Á unglingsárunum fór Nanna að finna áhugann á því að flytja tónlist.

„Ég var í Keflavík að reyna að koma mér að á öllum börum þar til þess að troða upp og ég var eiginlega bara krakki ennþá. Þannig að tónlistaráhuginn kviknar bara fljótt og náttúrulega, út frá því að hafa verið ein eitthvað að dúlla sér.“

Hún segir að í dag sé tónlistin órjúfanlegur hluti af sjálfri sér.

„Ég verð smá ómöguleg ef mér finnst ég ekki hafa aðgang að tónlistinni. Mér finnst eins og ég upplifi að vera ekki beint ég sjálf ef ég er ekki að gera tónlist.“

Nanna Bryndís tengist tónlistinni órjúfanlegum böndum.Vísir/Vilhelm

Frá Músíktilraunum til Bandaríkjanna

Þegar Of Monsters And Men ævintýrið fór af stað segir Nanna að það hafi tekið meðlimina langan tíma að átta sig almennilega á því hvað væri að gerast.

„Við byrjuðum hljómsveitina náttúrulega út frá því að við tókum þátt í Músíktilraunum og við ákváðum að henda saman í band tveimur vikum fyrir Músíktilraunir. Það var fyrsta giggið okkar saman sem band. Fyrir það hafði ég verið að spila ein en ég þekkti alla þessa stráka og við vorum félagar. Músíktilraunir var svona fyrsta giggið og þetta var alveg svolítið sérstakur tími.

Áður en þetta sprakk út vorum við hér á Íslandi að spila út um allt, til dæmis á skemmtistaðnum Faktorý og með tónleika út um allt. Síðan gerum við lag, Little Talks, sem einhvern veginn nær til fólks og nær út fyrir landsteina. Og það er svo allt í einu komið í útvarpsspilun í Bandaríkjunum og út um allan heim.“

Í spilaranum hér að neðan má sjá tónlistarmyndband við lagið lagið Visitor með Of Monsters And Men:

Súrrealísk upplifun

Fljótlega eftir það fara þau á tónleikaferðalag og út frá því fór allt á flug. Of Monsters And Men hafa fyllt hverja tónleikahöllina á fætur annarri víðsvegar um heiminn og komið fram í gríðarlega vinsælum spjallþáttum á borð við Jay Leno, Saturday Night Live og The Tonight Show með Jimmy Fallon.

„Þetta var svo skrýtið því þetta gerðist allt svo ótrúlega hratt. Við spiluðum á tónlistarhátíðinni South By Southwest í Texas og vorum einnig búin að bóka lítinn túr um Ameríku. 

Svo gekk þetta einhvern veginn svo vel að þetta stækkaði allt og þegar að við vorum að klára túrinn vorum við bara mætt að spila á stóru festival sviði og hugsuðum bara vá, afhverju eruð þið öll mætt hingað að hlusta á okkur?“ segir hún hlæjandi og bætir við að þetta hafi verið svolítið súrrealískur tími í þeirra lífi.

Líf Nönnu hefur verið ævintýri líkast síðastliðinn áratug. Hér má sjá mynd fyrir plötu hennar How to Start a Garden.Silken Weinberg and Angela Ricciardi

„Við vorum á tónleikaferðalagi í tvö ár, bjuggum í ferðatöskum og vorum stanslaust að spila, og svo þegar við komum heim þá tók við smá tímabil þar sem við vorum bara vá hvað gerðist eiginlega? Og eigum við að gera meira?“ segir Nanna brosandi en hún var einungis 22 ára gömul á þessu fyrsta tónleikaferðalagi sínu um Bandaríkin.

„Þetta varð einhvern veginn ekki yfirþyrmandi fyrir mér en ég held að það hafi líka verið af því að við vorum svolítið saman í þessu, ég og strákarnir. Maður fann sig alltaf og við vorum alltaf saman sem heild. Ég held að þetta geti verið erfitt ef maður er bara ung og ein að taka sín fyrstu skref. Ég dáist að þeim ungu stelpum sem ég fylgist með í dag sem eru að gera ótrúlega hluti og mér finnst þær magnaðar.“

Íslenska einkennið

Nanna segir að þessi lífsreynsla hafi því verið góð og hún hafi ekki upplifað mikla afskiptasemi á því hvernig hún var.

„Við höfum alltaf verið með rosa sterka sýn á það hver við erum og það hefur hjálpað mikið að við séum hópur. Við erum mjög þver og erum ákveðin í því hver við viljum vera og hvað við viljum gera. Í þau fáu skipti sem einhver hefur ætlað að reyna að koma inn og vera með puttann í einhverju hjá okkur þá fattar fólk fljótt að við erum íslenskt band og við höfum alltaf það einkenni. 

Það er eitthvað þar sem fólkið úti skilur ekki alveg og það er því erfitt að ætla að fara að fikta í því. Það er bara off strax ef einhver hefur ætlað að breyta því. Við höfum alltaf getað gert okkar.“

Nanna Bryndís og hundurinn hennar Vofa.Vísir/Vilhelm

Nýtt upphaf

Nanna gaf út sólóplötuna How to Start a Garden fimmta maí síðastliðinn og táknar platan nýtt upphaf. Lögin, sem eru jafnt draumkennd og jarðbundin, fjalla um að upplifa sig smá týnda en vongóða á sama tíma og að halda ró sinni í hvers konar stormi.

Á meðan Nanna var að semja plötuna þá eyddi hún töluverðum tíma í að dást að fallegum garði nágranna síns. Garðurinn er einskonar samtal við árstíðirnar, allt er í sífelldri endurnýjun, vex, dafnar og deyr. Það endurspeglaði hugarástandið hennar og vegferðina sem platan var að taka.

Hér má sjá textamyndband fyrir titillagið en það var tekið upp á Íslandi af Silken Weinberg og Angela Ricciardi:

Klippa: Nanna - How to Start a Garden

Þurfti að semja algjörlega út frá sjálfri sér

Það hafði lengi blundað í Nönnu að fara að gera sóló efni.

„Þegar ég byrjaði að gera tónlist var ég alltaf ein sem mér fannst mjög gaman en líka svolítið einmanalegt og leiðinlegt. Þess vegna sóttist ég í það að vera í hljómsveit.

Svo fékk ég einhverja þörf, ég þurfti að semja algjörlega út frá mér. Í hljómsveit þá er þetta alltaf samtal þar sem við erum öll að skapa saman. En það gerðist eitthvað hjá mér þar sem ég fann að ég þurfti að segja hlutina algjörlega á minn hátt.

Svo kom Covid og þá var bara allt í einu rosa mikill tími þar sem maður var til dæmis ekki á tónleikaferðalagi. Það var rosa mikil ró og þessi plata er einmitt þannig að maður er svolítið einn með sjálfum sér, svona aðeins að krukka og fara í gegnum hugann.“

Nanna Bryndís Hilmarsdóttir leitaði inn á við og í einveruna við gerð nýju plötunnar.Vísir/Vilhelm

Sammannlegar tilfinningar á persónulegri plötu

Hún segir plötuna vera samansafn af alls konar tilfinningum og upplifunum.

„Þetta er persónuleg plata en þetta er úr öllum áttum. Hún gerist svolítið á þremur árum en svo er ég einnig að sækja í hluti sem fara lengra aftur í tímann og líka inn í framtíðina. Í grunninn snýst hún svolítið um að vera einn með sjálfum sér. 

Mér finnst þetta vera svona plata þar sem maður setur á sig heyrnartól, er kannski úti að labba og finnur að það er verið að tala svolítið til manns, þannig að hlustandinn getur kannski speglað sig í þessu.

Í rauninni erum við líka öll að ganga í gegnum það sama að einhverju leyti á ólíkan hátt. Það hafa allir upplifað að vera einmana, ástfanginn, vera í ástarsorg eða missa einhvern. Þetta er allt sameiginlegt.“

Í spilaranum hér að neðan má sjá tónlistarmyndband við lag Nönnu Godzilla:

Klippa: Nanna - Godzilla

Leyfir sér að segja hluti sem hún myndi annars aldrei segja

Tónlistin hefur alltaf reynst Nönnu öflugt tjáningartól.

„Málið er að mér finnst í raun og veru oft svolítið erfitt að útskýra hlutina. Það sem mér hefur þótt mjög erfitt núna með þessa plötu er að setjast einmitt svona niður með kaffi og segja þessi plata er um þetta. Það er svo erfitt að koma henni í orð. Yfirleitt finnst mér erfitt að útskýra með orðum en það er annað þegar að það kemur að tónlistinni.

Ég er að segja alls konar hluti í gegnum plötuna sem ég myndi aldrei segja annars án tónlistarinnar og mér finnst ég vera mjög berskjölduð í textunum þar sem ég fer til dæmis yfir óöryggi og aðrar tilfinningar.“

Fyrir henni er auðveldara að vera berskjölduð í gegnum tónlistina, þar sem fólk tekur hlutunum gjarnan öðruvísi í gegnum hana.

„Hlustandinn er ekki að hugsa um mig eða hvað ég gekk í gegnum. Þú ert að hlusta og hugsar kannski já, þetta meikar svo mikið sens fyrir mér. Það er það sem er svo flott við tónlist, þetta er algjört sameigingar form og þetta snýst ekki um egóið eða manneskjuna á bak við hana. Það er því auðvelt að spegla sig í tónlist.“

Nanna elskar sameiningarkraftinn sem er fólginn í tónlistinni. Vísir/Vilhelm

Tengingin við áhorfendur fallegust

Nanna glímir ekki við sviðskrekk og nýtur sín vel uppi á sviði þegar hún er að flytja tónlist. Í daglegu lífi er hún jarðbundin og kýs að halda einkalífinu fyrir sig. Blaðamaður spyr hana út í það hvort það hafi alltaf verið henni mikilvægt að halda því svoleiðis.

„Já, ætli ég sé ekki svolítið prívat manneskja. Það er þó ekki meðvitað hjá mér að vera svona prívat heldur er það bara algjörlega út frá einhverjum svona þægindaramma. 

Mér finnst athygli stundum óþægileg nema þegar að ég fer upp á svið með tónlistina, þá líður mér vel. 

En það er annað að fara í viðtöl til dæmis, mér finnst svolítið erfitt að tala um sjálfa mig í raun og veru. Ég verð svolítið eins og einhver kleina,“ segir Nanna kímin.

Aðspurð hvort hún þurfi að gera eitthvað ákveðið til að gíra sig upp fyrir sviðið segir Nanna svo ekki vera.

„Maður verður alveg stressaður fyrir svið en samt stressaður á mjög fallegan hátt og þetta er svona rétt stress. Stundum áður en ég stíg á svið fyrir tónleika og bara í raun þegar maður er að gefa út plötu þá hugsar maður afhverju er ég að þessu? En svo um leið og maður gerir það þá meikar það bara svo ótrúlega mikið sens. 

Ég get alveg orðið stressuð en svo bara kemur þetta. Það er bara hvernig maður er að hreyfa sig á sviðinu og nær tengingu við fólk. Fallegustu mómentin eru einmitt það, að ná tengingu og eiga eitthvað magnað móment inn í rýminu sem verður ekki endurtekið. 

Þó ég geti verið feimin þá er ég aldrei feimin uppi á sviðinu. Mér finnst það aldrei óþægilegt.“
Nanna nýtur sín alltaf í gegnum tónlistina og segist aldrei verða feimin uppi á sviði.Republic Records

Mikilvægt að muna að hugsa minna

Nanna býr að ótrúlega mikilli reynslu í tónlistinni en þegar blaðamaður spyr hana hvað hafi verið lærdómsríkast segir hún erfitt að finna eitthvað eitt ákveðið.

„Það sem kemur upp í hugann núna er að eg þarf að minna mig oft á að hugsa minna og bara gera. Ég hef þurft að læra það og það eru margir sem eru að skapa lenda svolítið í því að stoppa einhvers staðar af því þetta þarf að vera einhvern veginn.“

Hún segist hafa verið einstaklega meðvituð um þetta við gerð sóló plötunnar.

„Ég passaði mig á því að hugsa að platan þyrfti ekki að vera neitt ákveðið. Svo ég komi aftur að því að vera prívat þá sagði ég rosa fáum að ég væri að vinna að þessari plötu. 

Ég vissi bara svolítið að það yrði besta útkoman, þá gat ég verið rosa frjáls í mínu og það eru engar væntingar, það finnst engum neitt og mér finnst ekki neitt og maður er bara algjörlega í því. Það að skapa bara til þess að skapa og svo sér maður bara hvað maður er með í höndunum.

Ég vildi ekki fara í að hugsa að þetta væri ekki nógu mikið svona eða hinsegin, það getur verið svolítið eitur. Ég þekki svo mikið af ógeðslega kláru fólki sem er að gera svo flotta hluti en það bara setur eitthvað svona fyrir sér af því það er einhvern veginn strax komið á endastöð en byrjar aldrei á byrjuninni. 

Almennt séð held ég að það sé gott fyrir fólk að vita þetta, að leyfa hugsununum ekki að stoppa sig af.“

Sjálfsöryggið er flæðandi

Blaðamaður spyr Nönnu hvort að hún finni fyrir því að sjálfsöryggið verði meira með árunum.

„Sjálfsöryggið hefur bæði komið og farið með árunum. Þegar ég hef verið á tónleikaferðalagi með strákunum og það er ógeðslega mikið að gera þá finnur maður svo mikinn tilgang og gleði en gleymir samt stundum líka að njóta. 

Svo kemur maður til baka úr því og það hefur alltaf verið svolítið ýkt hjá mér að fara í öfgar, eftir tónleikaferðalög get ég farið rosa mikið inn á við. Þetta getur flúxað svolítið, stundum er maður mjög öruggur í sínu og stundum verður maður óöruggur. Og mér finnst ég alltaf vera að dansa svolítið þarna á milli. Stundum er bara dagamunur á því hjá mér.“

Nanna nýtur sín vel í eigin félagsskap og segist ekki hafa upplifað neinar svakalegar breytingar á sínu persónulega lífi í faraldrinum, fyrir utan það að auðvitað spila lítið.

„Mér líður mjög vel í mínum eigin félagsskap og mér þykir það oft svolítið nauðsynlegt. Ég þarf oft smá rými og það kemur mjög náttúrulega hjá mér að skapa innra með sjálfri mér. En það sem ég er líka búin að læra er að þó að það sé frábært að geta nördast svolítið sjálf og gefið sér tíma, þá koma svo magnaðir hlutir út frá samvinnu. 

Ég kom náttúrulega úr svo miklu samstarfi og svo núna þegar ég var að gera plötuna ætlaði ég bara að gera hana alveg ein. Það kom svo tímapunktur þar sem það var bara ógeðslega leiðinlegt.

Ég áttaði mig á því að það væri ekki gaman að gera þetta alveg ein, til hvers og afhverju? Þannig að ég fattaði svolítið aftur upp á nýtt hvað það er gaman að vera í samstarfi. Á plötunni sem ég allt sjálf og pródúsera mikið af henni sjálf en það að hleypa fólki inn og þykja vænt um eitthvað saman, það finnst mér svo ótrúlega flott. 

Núna er ég svolítið sjúk í það að vinna með fólki. Ég fattaði bara vá það er svo gaman þegar eitthvað smellur saman og þegar tveir eða fleiri eru spenntir saman, það er ógeðslega góð tilfinning.“

Í spilaranum hér að neðan má sjá textamyndband við lagið Disaster Master með Nönnu:

Klippa: Nanna - Disaster Master

Tónleikaferðalagið hefst á Íslandi

Nanna er á leið í tónleikaferðalag sem hefst 12. júlí með tónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði.

„Ég er rosalega spennt fyrir þessu tónleikaferðalagi. Það er líka alveg skrýtið, ég hef aldrei túrað svona sóló án hljómsveitarinnar en ég verð náttúrulega ekki ein, ég er með hljómsveit sem ég setti saman fyrir þetta verkefni. 

Við förum til Bandaríkjanna, Bretlands og svo endum við með tvenna tónleika á Iceland Airwaves. Ég er með frábært fólk með mér í bandinu og við hlökkum öll ótrúlega mikið til.“

Þegar það kemur að tísku og sjónrænni list segir Nanna að innblásturinn sé algjörlega háður tónlistinni.

„Þetta er orðið svolítið batterí hjá okkur í Of Monsters And Men og þetta er alltaf mikið show. Þessi túr sem ég er að fara á núna er náttúrulega miklu meira í takt við nýju plötuna sem er meira introvert orka og þetta verður því meira intimate.“

Hún segir að stemningin verði því afslöppuð.

„Við erum bara að fara að vera band uppi á sviði, spila lögin fyrir fólk og búa til umgjörð þar sem þessi einstaka tilfinning myndast þegar maður fer á tónleika. Hér erum við saman í þessu mómenti og þessari nánd.“

Fatnaður hennar fyrir tónleikaferðalagið er enn í hugarvinnslu.

„Þegar ég er með strákunum er glimmer og extrovert orkan í gangi hjá mér. Ég er að reyna að fatta núna með þessa plötu hvernig ég kem fram og bara hugsa hverju á ég að vera í, segir hún hlæjandi. Það meikar allavega ekki sens að vera í glimmergalla með þessum lögum. Þannig að þetta er enn í mótun.“

Nanna er enn að ákveða hvaða fatnaður hentar tónleikaferðalaginu best.Vísir/Vilhelm

Rútínuleysið erfitt

Nanna segir að tónleikaferðalögin síðastliðinn áratug hafi gert það erfitt að halda í fasta rútínu.

„Það sem ég ströggla mest við er rútínuleysi. Ég hef áttað mig á því í gegnum árin. Það hljómar eins og það sé rosa gaman og heillandi, eins og maður sé rosa frjáls, en það er í raun ekki svoleiðis. Maður er rosalega skuldbundinn þegar maður er skuldbundinn og svo á maður bara að fara heim að semja.“

Hún segir hugmyndir sínar um lagasmíði hafa breyst mikið.

„Þegar ég var yngri hugsaði ég bara þegar lagið kemur til mín þá bara kemur það til mín. Svo verður lífið aðeins flóknara, það verður rosalega mikið að gera og maður verður að gefa sér tíma í þetta, ég lærði það og þá kemur einmitt rútínan inn. Að kunna að púsla öllu saman þannig að maður fari á vinnustofuna sína, setjist niður og gefi sér tíma til að semja.“

Blaðamaður spyr þá hvernig það hafi gengið að viðhalda samböndum og vinum í óhefðbundinni rútínu og mikið af ferðalögum.

„Ég á rosalega stóran og frábæran vinahóp frá því að ég var yngri. Við erum öll rosalega ólík og gerum ólíka hluti.

Þegar ég kom heim eftir vinnutörn þá voru auðvitað allir að gera sitt á meðan að ég var úti. Stundum fannst mér erfitt að koma til dæmis heim eftir tónleikaferðalag mér leið eins og ég hefði misst af. Maður var alltaf að droppa við inn á milli. 

Þetta er orðið allt öðruvísi núna, við túrum miklu minna. Heimurinn er líka orðinn allt öðruvísi núna, fólk er almennt að túra mikið minna. Þegar við vorum að byrja þá var þetta náttúrulega frekar öfgafullt.“

Nanna Bryndís Hilmarsdóttir horfir björtum augum til framtíðarinnar en ætlar sér að lifa í nú-inu.Vísir/Vilhelm

Orkumikil sköpunargleði inn í framtíðina

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að Nanna byrjaði sinn tónlistarferil og er augljóst að tónlistin er hennar köllun í lífinu. Hún segist sannarlega sjá framtíðina fyrir sér í tónlistarheiminum bæði sem glitrandi meðlimur Of Monsters And Men og sem afslöppuð sóló tónlistarkona.

„Ég er nýbúin að uppgötva hvað það er mikilvægt fyrir mig að vera með mitt en líka hvað hljómsveitin er mikilvæg fyrir mig. Þannig að framtíðin mín liggur á báðum stöðum. Ég er líka á þeim stað núna að mér finnst bara svo gaman að gera og skapa. 

Ég er svolítið bara að setja orkuna mína í það og ég hef ekkert hugsað mikið lengra en það. Það er líka mottóið, að hugsa ekkert alltof mikið og vera bara í nú-inu,“ segir þessi jarðbundna, kraftmikla og hógværa tónlistarkona brosandi að lokum.

Hér má hlusta á nýtt efni Nönnu á streymisveitunni Spotify


Tengdar fréttir

Nanna Bryndís sóló á Airwaves

Tuttugu og tveir listamenn sem koma fram á Iceland Airwaves hátíðinni hafa nú verið tilkynntir. Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni er Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, söngkona Of Monsters and Men. Þetta verður í fyrsta skipti sem hún kemur fram undir nafni sólóverkefnis síns, Nanna, hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.