Enski boltinn

Havertz orðinn leikmaður Arsenal

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kai Havertz er orðinn leikmaður Arsenal.
Kai Havertz er orðinn leikmaður Arsenal. Vísir/Getty

Kai Havertz er formlega genginn til liðs við Arsenal í ensku úrvalsdeildinni en félagaskiptin hafa legið í loftinu síðustu daga. Kaupverðið er 65 milljónir punda.

Kai Havertz hefur leikið með Chelsea síðan árið 2020 en hann kom til Englands frá Leverkusen í Þýskalandi. Hann hefur leikið 91 leik fyrir Chelsea og skorað í þeim 19 mörk en færir sig nú um set í Lundúnum.

Nokkrir dagar eru síðan greint var frá því að félagaskiptin væru svo gott sem frágengin og hálfgerð staðfesting kom í dag þegar viðtal við Havertz um félagaskiptin lak út og birtist á samfélagsmiðlum.

Arsenal hefur nú staðfest skiptin en ef óskir Mikel Arteta knattspyrnustjóra ganga eftir eru þetta aðeins fyrstu félagaskiptin af nokkrum í sumar.

Liðið er að eltast við Declan Rice eins og frægt er orðið og virðist sem félagið sé það eina eftir í kapphlaupinu um enska landsliðsmanninn eftir að fréttir bárust í dag að Manchester City ætlaði ekki að leggja fram nýtt tilboð.

Nú undir kvöld bárust síðan fréttir af því að West Ham hefði samþykkt 105 milljón punda tilboð í Rice. Því má búast við að þau skipti gangi í gegn á allra næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×