Erlent

Líkams­leifar fundust í flakinu af Titan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Brakið kom til hafnar í gær.
Brakið kom til hafnar í gær. AP/Paul Daly

Líkamsleifar hafa fundist í brakinu af kafbátnum Titan, sem fórst skammt frá flakinu af Titanic fyrir um tveimur vikum síðan. Fimm voru innanborðs þegar slysið átti sér stað.

Brak úr kafbátnum var flutt til hafnar í Kanada í gær en að sögn talsmanna strandgæslunnar verða líkamsleifarnar fluttar til Bandaríkjanna, þar sem þær verða rannsakaðar.

Þá verður ráðist í umfangsmikla rannsókn á því nákvæmlega hvað gerðist. Farþegarnir eru taldir hafa látist samstundis þegar kafbáturinn gaf sig undan þrýstingi.

Meðal þess sem sást á hafnarbakkanum í gær voru hlutar af ytra byrði kafbátsins, skíðin undir honum og kaplar og rafeindabúnaður. Pelagic Research Services, sem eiga könnunarfarið sem fann Titan, sögðust í gær hafa lokið aðgerðum á vettvangi.

Samgönguyfirvöld í Bandaríkjunum segja atvikið hafa verið tilkynnt sem „alvarlegt sjóslys“ og að strandgæslan muni fara fyrir rannsókn þess. Vonast er til þess að brakið og mögulega varðveitt gögn muni varpa ljósi á hvað gerðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×