Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - Víkingur 1-3 | Þriðji sigur Víkings í röð Andri Már Eggertsson skrifar 29. júní 2023 22:40 VÍSIR/HULDA MARGRÉT Topplið Víkings vann 1-3 útisigur á Fylki. Gestirnir komust yfir snemma í leiknum en það tók Fylki aðeins tvær mínútur að jafna. Víkingur komst síðan aftur yfir snemma í síðari hálfleik. Ari Sigurpálsson skoraði þriðja mark Víkings þegar heimamenn köstuðu öllu liðinu fram til að freista þess að jafna metin á 95. mínútu. Leikurinn fór af stað með látum og eftir tólf mínútur voru bæði liðin búin að skora. Víkingur byrjaði töluvert betur og hélt meira í boltann. Matthías Vilhjálmsson braut ísinn eftir tíu mínútur. Oliver Ekroth átti langa sendingu fram á Erling Agnarsson sem átti laglegan sprett upp hægri kantinn þar sem hann renndi boltanum fyrir markið og þar átti Matthías viðstöðulaust skot sem Ólafur Kristófer átti ekki möguleika á að verja. Það áttu margir von á því að topplið Víkings myndi hafa það náðugt á Wúrth-vellinum einu marki yfir en svo var ekki rauninn. Tveimur mínútum seinna jafnaði Óskar Borgþórsson metin. Elís Rafn Björnsson átti lagleg fyrirgjöf sem Óskar Borgþórsson skallaði í markið. Ólafur Kristófer Helgason, markmaður Fylkis, átti tilþrif fyrri hálfleiks þegar hann varði skalla Matthíasar Vilhjálmssonar frábærlega. Birnir átti sendingu fyrir markið sem Matthías skallaði þokkalega nálægt markinu en Ólafur varði ótrúlega. Ólafur fylgdi þessu eftir með því að verja tvö skot til viðbótar skömmu seinnar. Það var jafnt í hálfleik 1-1. Víkingur komst yfir þegar tæplega sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Birnir Snær átti hnitmiðaða sendingu á vítapunktinn beint á Viktor Örlyg Andrason sem hitti boltann afar vel og kom Víkingi yfir. Til marks um yfirburði Víkings í leiknum þrátt fyrir að vera aðeins einu marki yfir þá gerði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, þrefalda breytingu á 70. mínútu þar sem hann tók Birni Snæ Ingason, Erling Agnarsson og Danijel Dejan Djuric af velli. Fylkir fékk þó nokkur færi undir lokin til þess að jafna metin. Heimamenn köstuðu öllu fram á lokamínútunum og fengu tækifæri. Það var síðan á fimmtu mínútu uppbótartíma þegar Ari Sigurpálsson innsiglaði sigur Víkings þegar hann skoraði nánast í autt markið eftir skyndisókn þar sem allir leikmenn Fylkis fóru í sókn og þar með var Ólafur Kristófer talinn. Niðurstaðan 1-3 sigur Víkings sem er á toppi deildarinnar átta stigum á undan Val sem á leik til góða. Af hverju vann Víkingur Reykjavík? Þrátt fyrir nokkra slæma kafla í leiknum sem gaf Fylki tækifæri til þess að skora þá voru yfirburðir Víkings miklir. Víkingur stjórnaði leiknum, nýtti færin sín betur og hélt töluvert meira í boltann. Víkingur gerði vel í að verjast þegar Fylkir lagði allt í sölurnar undir lokin og sigurinn verðskuldaður. Hverjir stóðu upp úr? Hættulegustu sóknir Víkings fóru í gegnum kanntmennina Birni Snæ Ingason og Erling Agnarsson sem lögðu upp fyrsta og annað mark Víkings. Ólafur Kristófer Helgason, markmaður Fylkis, stóð sig vel í kvöld og sá til þess að staðan var jöfn í hálfleik. Ólafur gat síðan lítið gert í öðru og þriðja marki Víkings. Hvað gekk illa? Varnarleikur Fylkis í fyrsta og öðru marki Víkings var ekki fallegur. Birnir og Erlingur komust heldur auðveldlega í gegnum bakverði Fylkis og náðu að senda boltann fyrir markið án þess að þurfa hafa mikið fyrir því. Hvað gerist næst? Víkingur mætir Keflavík á HS Orku-vellinum 8. júlí. Miðvikudaginn 12. júlí mætast Valur og Fylkir á Origo-vellinum. „Töpuðum ekki leiknum út af dómurunum en þeir hefðu átt að dæma aðeins betur“ Rúnar Páll var svekktur eftir tap gegn toppliðinuVísir/Diego Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var svekktur eftir tap kvöldsins. „Við vorum grátlega nálægt því að jafna undir lokin. Það var svakalegur kraftur í okkur síðustu tuttugu mínúturnar og það var ótrúlegt að við jöfnuðum ekki. Síðan skoruðu þeir alveg í lokin og það var lítið að marka það,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson eftir leik. Rúnar var ekki sáttur með varnarleik Fylkis í fyrsta og öðru marki Víkings. „Ég er búinn að ræða þetta margoft hvernig við eigum að staðsetja okkur inn í teig en það er ekki nóg. Við þurfum að hafa meiri gæði í þessu varnarlega.“ Rúnar Páll vildi fá vítaspyrnu þegar Matthías Vilhjálmsson fleygði sér á Nikulás Val inn í teig. „Mér fannst við hefðum átt að fá tvö víti í þessum leik en það er ekki nóg að segja það. Maður fær bara spjöld þegar maður segir eitthvað við þessa dómara. Við töpuðum ekki leiknum út af þeim en þeir hefðu átt að dæm aðeins betur.“ Rúnar vildi lítið segja til um það hvort Fylkir muni styrkja sig þegar félagaskiptaglugginn opnar. „Við erum að spila fínt og ég hef engar áhyggjur af því og við spyrjum að leiks lokum. Við vitum 3. september hvort við verðum í neðri eða efri helmingnum og við verðum að hafa trú á verkefninu það eru aðeins 13. umferðir búnar,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson að lokum. Besta deild karla Fylkir Víkingur Reykjavík
Topplið Víkings vann 1-3 útisigur á Fylki. Gestirnir komust yfir snemma í leiknum en það tók Fylki aðeins tvær mínútur að jafna. Víkingur komst síðan aftur yfir snemma í síðari hálfleik. Ari Sigurpálsson skoraði þriðja mark Víkings þegar heimamenn köstuðu öllu liðinu fram til að freista þess að jafna metin á 95. mínútu. Leikurinn fór af stað með látum og eftir tólf mínútur voru bæði liðin búin að skora. Víkingur byrjaði töluvert betur og hélt meira í boltann. Matthías Vilhjálmsson braut ísinn eftir tíu mínútur. Oliver Ekroth átti langa sendingu fram á Erling Agnarsson sem átti laglegan sprett upp hægri kantinn þar sem hann renndi boltanum fyrir markið og þar átti Matthías viðstöðulaust skot sem Ólafur Kristófer átti ekki möguleika á að verja. Það áttu margir von á því að topplið Víkings myndi hafa það náðugt á Wúrth-vellinum einu marki yfir en svo var ekki rauninn. Tveimur mínútum seinna jafnaði Óskar Borgþórsson metin. Elís Rafn Björnsson átti lagleg fyrirgjöf sem Óskar Borgþórsson skallaði í markið. Ólafur Kristófer Helgason, markmaður Fylkis, átti tilþrif fyrri hálfleiks þegar hann varði skalla Matthíasar Vilhjálmssonar frábærlega. Birnir átti sendingu fyrir markið sem Matthías skallaði þokkalega nálægt markinu en Ólafur varði ótrúlega. Ólafur fylgdi þessu eftir með því að verja tvö skot til viðbótar skömmu seinnar. Það var jafnt í hálfleik 1-1. Víkingur komst yfir þegar tæplega sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Birnir Snær átti hnitmiðaða sendingu á vítapunktinn beint á Viktor Örlyg Andrason sem hitti boltann afar vel og kom Víkingi yfir. Til marks um yfirburði Víkings í leiknum þrátt fyrir að vera aðeins einu marki yfir þá gerði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, þrefalda breytingu á 70. mínútu þar sem hann tók Birni Snæ Ingason, Erling Agnarsson og Danijel Dejan Djuric af velli. Fylkir fékk þó nokkur færi undir lokin til þess að jafna metin. Heimamenn köstuðu öllu fram á lokamínútunum og fengu tækifæri. Það var síðan á fimmtu mínútu uppbótartíma þegar Ari Sigurpálsson innsiglaði sigur Víkings þegar hann skoraði nánast í autt markið eftir skyndisókn þar sem allir leikmenn Fylkis fóru í sókn og þar með var Ólafur Kristófer talinn. Niðurstaðan 1-3 sigur Víkings sem er á toppi deildarinnar átta stigum á undan Val sem á leik til góða. Af hverju vann Víkingur Reykjavík? Þrátt fyrir nokkra slæma kafla í leiknum sem gaf Fylki tækifæri til þess að skora þá voru yfirburðir Víkings miklir. Víkingur stjórnaði leiknum, nýtti færin sín betur og hélt töluvert meira í boltann. Víkingur gerði vel í að verjast þegar Fylkir lagði allt í sölurnar undir lokin og sigurinn verðskuldaður. Hverjir stóðu upp úr? Hættulegustu sóknir Víkings fóru í gegnum kanntmennina Birni Snæ Ingason og Erling Agnarsson sem lögðu upp fyrsta og annað mark Víkings. Ólafur Kristófer Helgason, markmaður Fylkis, stóð sig vel í kvöld og sá til þess að staðan var jöfn í hálfleik. Ólafur gat síðan lítið gert í öðru og þriðja marki Víkings. Hvað gekk illa? Varnarleikur Fylkis í fyrsta og öðru marki Víkings var ekki fallegur. Birnir og Erlingur komust heldur auðveldlega í gegnum bakverði Fylkis og náðu að senda boltann fyrir markið án þess að þurfa hafa mikið fyrir því. Hvað gerist næst? Víkingur mætir Keflavík á HS Orku-vellinum 8. júlí. Miðvikudaginn 12. júlí mætast Valur og Fylkir á Origo-vellinum. „Töpuðum ekki leiknum út af dómurunum en þeir hefðu átt að dæma aðeins betur“ Rúnar Páll var svekktur eftir tap gegn toppliðinuVísir/Diego Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var svekktur eftir tap kvöldsins. „Við vorum grátlega nálægt því að jafna undir lokin. Það var svakalegur kraftur í okkur síðustu tuttugu mínúturnar og það var ótrúlegt að við jöfnuðum ekki. Síðan skoruðu þeir alveg í lokin og það var lítið að marka það,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson eftir leik. Rúnar var ekki sáttur með varnarleik Fylkis í fyrsta og öðru marki Víkings. „Ég er búinn að ræða þetta margoft hvernig við eigum að staðsetja okkur inn í teig en það er ekki nóg. Við þurfum að hafa meiri gæði í þessu varnarlega.“ Rúnar Páll vildi fá vítaspyrnu þegar Matthías Vilhjálmsson fleygði sér á Nikulás Val inn í teig. „Mér fannst við hefðum átt að fá tvö víti í þessum leik en það er ekki nóg að segja það. Maður fær bara spjöld þegar maður segir eitthvað við þessa dómara. Við töpuðum ekki leiknum út af þeim en þeir hefðu átt að dæm aðeins betur.“ Rúnar vildi lítið segja til um það hvort Fylkir muni styrkja sig þegar félagaskiptaglugginn opnar. „Við erum að spila fínt og ég hef engar áhyggjur af því og við spyrjum að leiks lokum. Við vitum 3. september hvort við verðum í neðri eða efri helmingnum og við verðum að hafa trú á verkefninu það eru aðeins 13. umferðir búnar,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson að lokum.
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti