Í ákæru segir að maðurinn hafi ekið bílnum á 132 kílómetra hraða á vegarkafla við Moldhaugaháls, þar sem hámarkshraði er 90, og ekið bílnum í snjókrap í vegarkanti, misst stjórn á bílnum og stýrt honum inn á öfugan vegarhelming þar sem hann rakst harkalega á bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Maðurinn var að aka í suðurátt, í átt að Akureyri, en hinum bílnum var ekið í átt frá Akureyri.
Fram kemur að ökumaður og farþegi í hinum bílnum hafi slasast. Hlaut annar fjölda beinbrota en hinn brot á bringubeini og brot á hægra hné.
Fram kemur að maðurinn hafi ekki sótt þing þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall og var hann því dæmdur að honum fjarstöddum. Var hann sakfelldur fyrir það sem honum var gefið að sök i ákæru.
Dómari mat hæfilega refsingu sextíu daga fangelsi, en skal fresta fullnustu hennar og hún niður falla að tveimur árum liðnum, haldi maðurinn almennt skilorð. Þá var maðurinn sviptur ökurétti í þrjá mánuði.