Erlent

Lög­reglu­maður sem brást ekki við skóla­skot­á­rás sýknaður

Kjartan Kjartansson skrifar
Scot Peterson, fyrrverandi lögreglumaður við framhaldsskólann í Parkland, hrærður eftir að kviðdómur sýknaði hann af ákæru um að vanrækja börn sem voru skotin til bana í árásinni.
Scot Peterson, fyrrverandi lögreglumaður við framhaldsskólann í Parkland, hrærður eftir að kviðdómur sýknaði hann af ákæru um að vanrækja börn sem voru skotin til bana í árásinni. AP/Amy Beth Bennett/South Florida Sun-Sentinel

Kviðdómur í Flórída í Bandaríkjunum sýknaði skólalögreglumann sem var sakaður um að flýja af hólmi þegar byssumaður hóf skothríð í framhaldsskóla í Parkland árið 2018. Byssumaðurinn náði að skjóta sautján manns til bana áður en lögregla hafði hendur í hári hans.

Réttarhöldin voru þau fyrstu í sögu Bandaríkjanna þar sem lögreglumaður var ákærður fyrir framgöngu sína í skólaskotárás. Scot Peterson, lögreglumaður við Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólann í Flórída, var ákærður fyrir að reyna ekki að stöðva byssumanninn og hafa þannig gerst sekur um vanrækslu á börnum.

Myndbandsupptökur sýndu að Peterson hefði farið að byggingunni þar sem nítján ára gamall fyrrverandi nemandi gekk berserksgang með árásarriffli. Byssumaðurinn hafi verið við hinn enda gangs sem lögreglumaðurinn kom að. Í stað þess að ráðast inn kom Peterson sér í var 23 metra í burtu í útskoti á annarri byggingu með byssu sína á lofti. Hann hélt kyrru fyrir þar í fjörtíu mínútur, löngu eftir að árásinni lauk og aðrir lögreglumenn höfðu ráðist til inngöngu.

Peterson, sem var ekki í skotheldu vesti þegar árásin átti sér stað, hélt því fram að hann hefði reynt að stöðva byssumanninn en að hann hafi ekki átta sig á því hvaðan skothvellirnir komu vegna þess hvernig þeir bergmáluðu um svæðið. Yfirmaður Peterson sagði fyrir dómi að hann hefði ekki farið eftir verklagsreglum.

Segist aldrei gleyma fórnarlömbunum

Mikil fagnaðarlæti brutust út á meðal fjölskyldu Peterson og vina þegar kviðdómurinn tilkynnti niðurstöðu sína í gær. „Ég fékk líf mitt aftur. Við fengum líf okkar aftur,“ sagði Peterson þegar hann yfirgaf dómsalinn með eiginkonu sinni og lögmanni. Hann sagðist heldur aldrei gleyma fórnarlömbunum.

Feður tveggja nemenda sem féllu í árásinni voru ekki jafnánægðir, að sögn AP-fréttastofunnar. Þeir telja að Peterson hafi vitað hvar byssumaðurinn var en sett eigið öryggi ofar barnanna og flúið af hólmi.

Byssumaðurinn, sem nú er 24 ára gamall, var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðin þar sem kviðdómendur voru ekki á einu máli um hvort hann ætti skilið dauðarefsingu.


Tengdar fréttir

Ekki dæmdur til dauða fyrir árásina í Parkland

Kviðdómendur hafa komist að þeirri niðurstöðu að Nikolas Cruz, sem myrti sautján manns í skóla í Parkland í Flórída árið 2018, eigi ekki að vera tekinn af lífi. Þetta var gert opinbert rétt í þessu en saksóknarar höfðu farið fram á dauðadóm eftir að Cruz, sem er fæddur árið 1998, játaði ódæðið í Marjory Stoneman Douglas-skólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×