Körfubolti

Eva Margrét í sigur­liði

Smári Jökull Jónsson skrifar
Eva Margrét Kristjánsdóttir
Eva Margrét Kristjánsdóttir Vísir/Hulda Margrét

Eva Margrét Kristjánsdóttir og liðsfélagar hennar í Keilor Thunder báru sigurorð af Nunawading Spectors þegar liðin mættust í áströlsku deildinni í körfuknattleik í dag.

Eva Margrét gekk til liðs við ástralska liðið í vor frá Haukum en hún var einn besti leikmaður Hauka í Subway-deild kvenna í vetur. Keilor Thunder leikur í NBL1-deildinni í Ástralíu sem er fyrsta deildin þar í landi.

Leikurinn í dag var kaflaskiptur. Gestirnir úr liði Nunawading byrjuðu af miklum krafti og leiddu 28-14 eftir fyrsta leikhlutann en heimakonur í Keilor Thunder náðu að minnka muninn fyrir hálfleik og að loknum fyrri hálfleik var staðan 42-34 gestunum í vil.

Heimakonur héldu áfram að hamra járnið á meðan það var heitt. Liðið hélt áfram að minnka muninn og tókst loks að komast yfir í stöðunni 70-69 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Keilor Thunder vann að lokum 71-69 sigur og fullkomnuðu því góða endurkomu.

Eva Margrét Kristjánsdóttir lék í rúmar átján mínútur í leiknum. Hún tók 5 fráköst á þeim mínútum en tókst ekki að skora stig.

Keilor City er í 16. sæti í NBA1-South deildinni þegar liðið hefur leikið sautján leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×