Þetta má lesa úr kröfuskrá þrotabúsins, sem Vísir hefur undir höndum. Gjaldþrotaúrskurður var kveðinn upp þann 4. apríl síðastliðinn og kröfulýsingafrestur rann út 12. júní. Frestdagur er svo 4. febrúar næstkomandi.
Stærsta krafan í búið er frá Hofgörðum ehf., félags Helga Magnússonar. Krafan er almenn krafa sem hljóðar upp á rétt tæplega 998 milljónir króna. Óskar Sigurðsson, skiptastjóri búsins, tekur ekki afstöðu til almennra krafna í kröfuskrá. Það bendir til þess að ekki sé gert ráð fyrir því að nokkuð fáist upp í aðrar kröfur en forgangskröfur.
Skatturinn vill sitt en fær ekkert
Næststærsta krafan í búið er frá Ríkisskattstjóra og hljóðar upp á rúmlega 110 milljónir króna. Það er sömuleiðis almenn krafa og því kemur ekkert í kassa ríkissjóðs eftir skiptin.
Aðrar almennar kröfur eru til að mynda tæplega tíu milljónir króna frá GI rannsóknum ehf., félagi sem rekur Gallup, fimm milljónir frá upplýsingatæknifyrirtækinu Sensa, 3,5 milljónir frá JSB dreifingu og svo mætti lengi telja. Þá eru ótaldar kröfur blaðamanna og fleiri sem unnið hafa í verktöku fyrir Torg.
Aðstoðarritstjórinn vill tæplega ellefu milljónir
Forgangskröfur nema alls tæplega 319 milljónum króna, þar af eru 232 milljónir samþykktar. Meðal forgangskrafna eru tvær kröfur frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna upp á 17,5 milljónir samanlagt. Þar af voru tæplega 7 milljónir samþykktar.
Aðrar samþykktar kröfur eru litlar kröfur frá lífeyrissjóðum og launakröfur starfsmanna. Hæst þeirra er frá Garðari Erni Úlfarssyni, aðstoðarritstjóra Fréttablaðsins, en hann fer fram á um 10,8 milljónir króna. Skiptastjóri samþykkti um 7,8 milljóna króna kröfu frá honum.
Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri fer fram á um 8,1 milljón króna en skiptastjóri samþykkti 4,2 milljónir. Þórdís Lilja Gunnarsdóttir sem stýrði sérblöðum fer fram á 6,2 milljónir króna og Björn J. Þorláksson 5,2 milljónir. Skiptastjóri samþykkir kröfur þeirra beggja upp að 4,1 milljón.