Handbolti

Ólafur Stefáns er fimm­tugur í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson átti langan og sigursælan feril inn á handboltavellinum.
Ólafur Stefánsson átti langan og sigursælan feril inn á handboltavellinum. Getty/Jan Christensen/

Íslenska handboltagoðsögnin Ólafur Stefánsson fæddist 3. júlí 1973 og heldur því upp á fimmtugsafmælið sitt í dag.

Ólafur er eins og er aðstoðarþjálfari þýska liðsins Erlangen en hann lagði handboltaskóna á hilluna árið 2013.

Ólafur er einn farsælasti íþróttamaður Íslandssögunnar og var á sínum tíma fjórum sinnum kosinn Íþróttamaður ársins eða árin 2002, 2003, 2008 og 2009.

Ólafur var í aðalhlutverki þegar íslenska handboltalandsliðið náði sínum besta árangri á ÓLympíuleikum (silfur í Peking 2008), á Evrópumeistaramóti (brons í Austurríki 2010) og á heimsmeistaramóti (fimmta sæti á HM í Kumamoto 1997).

Ólafur skoraði 1511 mörk í 318 landsleikjum og átti lengi markamet landsliðsins áður en Guðjón Valur Sigurðsson tók það af honum.

Ólafur er líka einn sigursælasti handboltamaður Íslands þegar kemur að árangri með félagsliðum.

Hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari með Val áður en hann fór út í atvinnumennsku.

Hann vann bæði þýsku deildina, Meistaradeildina og EHF-bikarinn með Magdeburg. Hann spilaði með þremur liðum í Bundesligunni, bestu deild í heimi, og var þar með 1245 mörk í 257 leikjum.

Sigursælustu árin átti hann hjá Ciudad Real á Spáni þar sem hann vann Meistaradeildina þrisvar sinnum, spænsku deildina fjórum sinnum og sex bikartitla á Spáni.

Ólafur náði einnig að verða bæði Danmerkurmeistari með AG frá Kaupmannahöfn og meistari með Lekhwiya Sports Club Doha í Katar.

Ólafur varð markakóngur á EM 2002 í Svíþjóð þar sem íslenska landsliðið endaði í fjórða sæti. Hann var fjórum sinnum valinn í úrvalslið á stórmótum, tvisvar á EM (2002 og 2010) og tvisvar á Ólympíuleikum (2004 og 2008).

Til hamingju með afmælið Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×