Fótbolti

Gerrard tekinn við Al-Ettifaq

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Steven Gerrard er kominn til Sádi-Arabíu.
Steven Gerrard er kominn til Sádi-Arabíu. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Steven Gerrard, fyrrverandi leikmaður Liverpool og enska landsliðsins, er tekinn við stjórnartaumunum hjá Al-Ettifaq í sádiarabísku deildinni.

Gerrard hefur ekki starfað sem þjálfari síðan hann var látinn fara frá Aston Villa í október á síðasta ári. Greint var frá því á hinum ýmsu miðlum á dögunum að Gerrard væri með tilboð á borðinu frá Al-Ettifaq, en sjálfur sagðist hann þó ekki ætla að taka því.

Honum hefur þó greinilega snúist hugur og hann hefur nú verið kynntur til leiks hjá félaginu.

Á þjálfaraferli sínum hefur Gerrard stýrt Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni og Rangers í þeirri skosku. Undir stjórn Gerrards varð Rangers skoskur meistari í fyrsta sinn í tíu ár, en gengi Aston Villa undir hans stjórn var hins vegar ekki jafn gott.

Sem leikmaður lék Gerrard stærstan hluta ferilsins með Liverpool og vann nánast allt sem hægt var að vinna með félaginu. Alls lék hann 710 leiki fyrir félagið í öllum keppnum og skoraði í þeim 186 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×