Erlent

Týndist fyrir átta árum en fannst á lífi

Máni Snær Þorláksson skrifar
Farias fannst um helgina en hann týndist fyrir rúmum átta árum síðan.
Farias fannst um helgina en hann týndist fyrir rúmum átta árum síðan. Texas Center for the Missing

Rudy Farias týndist þegar hann var átján ára gamall, fyrir rúmum átta árum síðan. Hann fannst á lífi á laugardaginn í kirkju sem staðsett er í um tólf kílómetra fjarlægð frá heimili hans í borginni Houston í Texas, Bandaríkjunum.

Samkvæmt frétt NBC um málið er Farias nú staddur á sjúkrahúsi en ekki er vitað hvers vegna. Þá er ennþá óljóst hvar hann hefur verið síðastliðin ár eða hvers vegna hann hvarf.

„Það er kraftaverk að hann fannst en nú er spurningin, hvað gerðist? Hvar hefur hann verið? Hvers vegna? Hvað hefur hann verið að gera þessi síðustu átta ár?“ er haft eftir Tim Miller, rannsakanda hjá Texas EquuSearch, félagi sem hjálpaði til við leitina að Farias.

Áður en Farias fannst hafði ekki sést til hans síðan í mars árið 2015. Þá hafði hann verið úti að ganga með hundana sína tvo í nágrenni við heimilið sitt. Báðir hundarnir skiluðu sér heim, án ólanna sinna, en Farias fannst ekki.

Fjölskylda drengsins sagði á sínum tíma að Farias hafi glímt við þunglyndi eftir að hann missti eldri bróður sinn í mótorhjólaslysi sem hann var sjálfur vitni að. „Hann horfði á besta vin sinn deyja beint fyrir framan sig,“ sagði Brenda Paradise, einkaspæjari sem ráðinn var af fjölskyldu Farias eftir að hann hvarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×