Handbolti

ÓL-smuga opnast fyrir stelpurnar okkar

Sindri Sverrisson skrifar
Leiðin á Ólympíuleikana er löng og afar torfær en Ísland á alla vega fræðilega möguleika núna á að fara hana.
Leiðin á Ólympíuleikana er löng og afar torfær en Ísland á alla vega fræðilega möguleika núna á að fara hana. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta fékk ekki aðeins sæti á HM upp í hendurnar frá IHF á mánudaginn, heldur einnig möguleika á að komast á Ólympíuleikana í París á næsta ári.

Á HM er nefnilega í boði eitt öruggt sæti á Ólympíuleikunum, og sex sæti í ólympíuumspili.

IHF, alþjóða handknattleikssambandið, ákvað að veita Austurríki og Íslandi síðustu tvö sætin sem í boði voru á HM. Sambandið hélt opnu hvaða tvö lið fengju síðustu sætin og valdi á endanum tvö af þeim þremur liðum sem voru næst því að komast á HM í gegnum Evrópuumspilið í apríl síðastliðnum, sem voru mikil gleðitíðindi fyrir Ísland.

Stelpurnar okkar fá svo að vita það á morgun með hvaða liðum þær verða í riðli á HM, en mótið fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð dagana 29. nóvember til 17. desember.

Með það í huga að Ísland er í fjórða og neðsta styrkleikaflokki fyrir HM-dráttinn er afar ólíklegt að liðið komist á Ólympíuleika. En ef Ísland verður heppið með riðil er þó ef til vill möguleiki á að enda nógu ofarlega til að komast í ólympíuumspilið.

Þurfa að komast í 8-liða úrslitin

Á HM spila 32 lið og verða þau dregin í átta fjögurra liða riðla. Upp úr hverjum riðli komast þrjú lið í milliriðlakeppni, þar sem tveir og tveir riðlar blandast saman í sex liða riðla. Tvö lið komast áfram úr hverjum milliriðli í 8-liða úrslitin, og þangað þyrfti Ísland að ná til að komast í ólympíuumspilið.

Til að það sé mögulegt þyrfti Ísland að vera heppið með riðil á morgun, sem og „tengiriðil“ sem riðill Ísland myndi blandast við í milliriðlakeppninni.

Ef Ísland kæmist í ólympíuumspilið myndi liðið spila um sæti á Ólympíuleikunum í apríl. Í umspilinu er spilað í þremur fjögurra liða riðlum og komast tvö lið áfram úr hverjum riðli, á Ólympíuleikana, þar sem tólf lið taka þátt.

Aðeins Frakkland, sem gestgjafi, og Evrópumeistarar Þóris Hergeirssonar í norska landsliðinu, hafa tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum.

Karlalandsliðið á einnig von

Karlalandslið Íslands í handbolta freistar þess sama og kvennalandsliðið, að komast á Ólympíuleikana í París, og þarf þá að ná góðum árangri á Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar. Þar verður í boði eitt öruggt sæti á leikunum og tvö sæti í umspilinu. 

Danir hafa þegar tryggt sig inn á ÓL með því að verða heimsmeistarar og lið Frakklands, Spánar, Svíþjóðar, Þýskalands, Noregs, Egyptalands og Ungverjalands fara að lágmarki í umspilið. Ísland keppir því í raun ekki við þessi lið um umspilssæti á EM í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×