Lífið

Mugi­son fer suður til þess að slaka á

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mugison er hæstánægður í bústaðnum.
Mugison er hæstánægður í bústaðnum. Vísir/Vilhelm/Arnar

Tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, hefur keypt sér hús á höfuðborgarsvæðinu. Því má segja að stofnandi tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður fari í raun iðulega suður. 

„Við keyptum sumarbústað síðasta haust í Mosfellsbæ og ég er búinn að vera mikið hérna en við fjölskyldan búum á Ísafirði. Okkur Rúnu, konunni minni, fannst alveg hilaríus að við landsbyggðartútturnar ættum sumarbústað á Reykjavíkursvæðinu.“ segir Mugison í samtali við Vísi.

„Okkur fannst líka mjög fyndið þegar við ákveðum að kaupa húsið að við værum að keyra í bæinn til þess að fara í sumarbústað, og slaka á, í Reykjavík.“ Hann segir það óvenjulegt að fólk af landsbyggðinni komi til borgarinnar í þeim tilgangi. 

Vinnur að nýrri plötu fyrir sunnan

„Ég er búinn að vera hérna rosalega mikið í vetur því ég er að vinna að plötunni minni og svo eru náttúrlega níutíu prósent af þeim verkefnum sem ég tek að mér í Reykjavík,“ segir tónlistarmaðurinn um bústaðinn. 

Hann segir frá þeim miklu lífsgæðum sem fylgdu því að kaupa húsið. Áður hafi hann haldið til í sendibíl þegar suður var komið.  „Ég var með sendibíl sem við vorum búin að innrétta sem  húsbíl og þá gisti ég oft í Laugardalnum,“ segir hann. 

Mugison er hæstánægður með fjárfestinguna. Hann segir sendibíladvölina hafa gengið misvel milli árstíða. „Á veturna var það kannski ekki alltaf ídealískt þannig að þetta er rosa upgrade að vera kominn með svona mega-næs sumarbústað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.