Handbolti

Ís­land hafi óskað eftir því að halda HM í hand­­bolta með Dan­mörku og Noregi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
HSÍ hefur sent inn óformlegt boð um að halda HM í handbolta 2029 eða 2031 með Dönum og Norðmönnum.
HSÍ hefur sent inn óformlegt boð um að halda HM í handbolta 2029 eða 2031 með Dönum og Norðmönnum. Jure Erzen/Kolektiff Images/DeFodi Images via Getty Images

Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, hefur ásamt handknattleikssamböndum Danmerkur og Noregs sent inn óformlegt boð um að fá í sameiningu að halda heimsmeistaramótið í handbolta árið 2029 eða 2031.

Þetta staðfesti Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, í samtali við Handbolti.is fyrr í dag. Hann segir þó að ekki sé um bindandi boð að ræða, allavega ekki enn sem komið er.

„Við erum saman með Dönum og Norðmönnum í boði sem lagt hefur inn til IHF um að halda HM karla 2029 eða 2031. Ekki um bindandi boð að ræða af hálfu landanna þriggja, enn sem komið er, en segja má að við höfum stigið fyrsta skrefið til að láta vita af okkur,” sagði Guðmundur í samtali við Handbolti.is.

Eftir því sem fram kemur á heimasíðu Handbolti.is væri hugmyndin sú að tveir riðlar yrðu leiknir hér á landi, sem og einn milliriðill. Allt í allt yrðu þetta því átta lið sem myndu leika leiki sína á Íslandi, að íslenska liðinu meðtöldu.

Alls munu 32 þjóðir taka þátt á mótinu og myndu því fjórðungur þeirra leika leiki sína í riðlakeppninni hér á landi. Liðin sem komast í átta liða úrslit og lengra fara síðan til Danmerkur eða Noregs og úrslitakeppnin yrði leikin þar.

Ný þjóðarhöll þyrfti að vera risin

Eins og flest íslenskt handbolta- og íþróttaáhugafólk veit er engin höll hér á landi sem myndi uppfylla þær kröfu sem þarf til að halda heimsmeistaramót í handbolta. Ný fyrirhuguð þjóðarhöll myndi þó leysa þann vanda.

Eins og staðan er nú er gert ráð fyrir því að ný þjóðarhöll muni rísa og að hún verði opnuð árið 2025. Sú höll gerir það að verkum að Ísland uppfyllir öll skilyrði sem gerð eru til keppnishúsa í riðla- og milliriðlakeppni á heimsmeistaramóta í handknattleik karla og kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×