Greg Slater og eiginkona hans Sharon Slater eru, og hafa verið um árabil, sökuð um að hafa freistað þess að hafa áhrif á leiðtoga og aðra stjórnmálamenn nokkurra Afríkuríkja og þannig lagt grunn að þeim lagabreytingum sem hafa orðið til þess að grafa undan réttindum og öryggi hinsegin fólks.
Sharon Slater fer fyrir Family Watch International, sem mannréttindasamtökin segja hafa staðið fyrir útbreiðslu fordóma og haturs gegn hinsegin fólki um áratugaskeið. Family Watch International er á lista Southern Poverty Law Center yfir haturshópa.
„Family Watch International hefur greitt fyrir ferðir pólitíkusa og diplómata frá Kenía, Úganda og öðrum Afríkuríkjum til að mata þá á öfgastefnu sinni gegn samkynhneigð, kynfræðslu og getnaðarvörnum,“ hefur Guardian eftir Jedidah Maina hjá Trust for Indigenous Culture and Health.
„Margir þessara stjórnmálamanna hafa svo farið og talað fyrir og stutt löggjöf til höfuðs saklausra Afríkubúa.“
Mannréttindasamtökin saka Family Watch International meðal annars um að hafa barist fyrir nýsettum lögum í Úganda, þar sem lífstíðarfangelsi og jafnvel dauðarefsing liggja við því að stunda „samkynhneigt athæfi“.
Family Watch International hafa neitað ásökununum en mannréttindasamtökin eru viss í sinni sök. „Það er ekkert „náttúrulegt“ við þá bylgju and-hinsegin laga sem við höfum verið að sjá,“ segir Muthoni Ngugi, hjá East Africa Legal Service Network.
Talsmaður Intel segir fyrirtækið styðja fjölbreytileika en virða rétt starfsmanna sinna til að hafa aðra afstöðu.