Fótbolti

Ensku strákarnir Evrópu­meistarar án þess að fá á sig mark

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Englands fagna með þjálfara sínum, goðsögninni Lee Carsley.
Leikmenn Englands fagna með þjálfara sínum, goðsögninni Lee Carsley. Sam Barnes/Getty Images

England lagði Spán 1-0 í úrslitum Evrópumóts U-21 árs landsliða. Enska liðið fór í gegnum mótið án þess að fá á sig mark þökk sé James Trafford, markverði liðsins, en hann varði vítaspyrnu í sigri dagsins.

Leikurinn fór fram á Adjarabet-vellinum í Georgíu þar sem mótið var spilað. Fyrir leik var erfitt að átta sig á hvort liðið væri sigurstranglegra en vörn vinnur titla og England hafði ekki enn fengið á sig mark.

Það mátti sjá að um úrslitaleik væri að ræða en bæði lið fengu fjölmörg gul spjöld í dag. Það var hins vegar England sem braut ísinn í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Curtis Jones, leikmaður Liverpool, skoraði eftir sendingu frá Cole Palmer, leikmanni Manchester City.

Í upphafi síðari hálfleiks kom Abel Ruiz, leikmaður Braga í Portúgal, boltanum í netið og staðan orðin jöfn 1-1 en eftir að myndbandsdómari leiksins hafði skoðað markið betur var það dæmt af.

Tíminn leið og England gerði hvað það gat til að halda fengnum hlut. Þegar komið var langt fram yfir venjulegan leiktíma fékk Spánn vítaspyrnu. Áðurnefndur Ruiz fór á punktinn en Trafford sá við honum og tryggði Englandi sigurinn.

Í kjölfarið á vítaspyrnunni fengu þeir Antonio Blanco og Morgan Gibbs-White báðir sitt annað gula spjald og þar með rautt. Það kom ekki að sök þar sem þeir voru hvorugur inn á vellinum og hafði það engin áhrif á fagnaðarlæti enskra. England stóð uppi sem Evrópumeistari U-21 árs landsliða karla án þess að fá á sig mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×