Íslenski boltinn

Vilja að Linda Líf verði kölluð í lands­liðið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Linda Líf Boama hefur heillað sérfræðinga Stöðvar 2 Sports.
Linda Líf Boama hefur heillað sérfræðinga Stöðvar 2 Sports.

Nýliðar Víkings hafa fagnað góðu gengi í Bestu deild kvenna í sumar. Undanfarið hefur liðið rokið upp stigatöfluna og situr nú jafnt 3. sæti deildarinnar. Einn leikmaður liðsins á stóran þátt í því, Linda Líf Boama.

Linda hefur verið algjörlega frábær í síðustu fimm leikjum, skorað fimm mörk og gefið eina stoðsendingu.

„Hún kemur seint inn í þetta Víkingslið en hefur verið að fá mínútur. Mér finnst þetta geggjaður íþróttamaður, númer eitt. Svo er hún líka með fullt, fullt annað. Þetta er geggjaður leikmaður og ótrúlegt að eiga hana inni sem auka bónus,“ sagði þáttastjórnandi Bestu markanna, Helena Ólafsdóttir.

„Ég var nú að kalla eftir því hér í síðasta þætti að hún fái kallið í A-landsliðshópinn ef hún heldur þessu áfram,“ svaraði þá sérfræðingurinn Mist Rúnarsdóttir.

Vegleg umræða um Víkingsliðið spratt af stað í kjölfarið. Þær eru á sínu fyrsta tímabili í deildinni en berjast í efri hlutanum og unnu öruggan 5-1 sigur í síðustu umferð gegn Tindastóli.

Klippa: Linda Líf í landsliðið

Innslagið allt úr Bestu mörkunum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×